Rússar halda sig heima

Veik rúbla og almenn andstaða við aðgerðir rússneskra stjórnvalda í Úkraínu eru sagðar vera helstu ástæður þess að rússneskum ferðamönnum fækkar á heimsvísu.

 

 

 

Veik rúbla og almenn andstaða við aðgerðir rússneskra stjórnvalda í Úkraínu eru sagðar vera helstu ástæður þess að rússneskum ferðamönnum fækkar á heimsvísu.

Það sem af er ári hafa tæplega 7.500 rússneskir ferðamenn heimsótt Ísland og hefur þeim fjölgað um 15 prósent í samanburði við fyrstu tíu mánuðina í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Víða annars staðar hefur rússneskum ferðalöngum hins vegar fækkað og reiknar forstöðumaður ferðamálaráðs Rússlands með um 30 prósent samdrætti í utanferðum Rússa í ár. Hann segir að viðskiptabönn, hækkandi dollar og óttinn við ebólu séu helstu ástæður þess að Rússar kjósi að eyða fríinu heima í stað þess að ferðast til annarra landa samkvæmt frétt Standby.dk.

Rúblan fellur

Síðustu 12 mánuði hefur gengi rússnesku rúblunnar fallið um 27 prósent í íslenskum krónum talið. Íslenskir ferðamenn í Rússlandi njóta því góðs af því en hafa þarf í huga að verðbólga í landinu mælist nú átta af hundraði.

Ekki lengur beint flug héðan

Síðustu tvö sumur hefur Icelandair boðið upp á tvær ferðir í viku frá Keflavík til Sankti Pétursborgar en ekki verður framhald á næsta sumar. Félagið mun hins vegar fjölga ferðum til Helsinki en þaðan eru góðar samgöngur við Rússland, bæði með flugi og lestum. Þannig tekur aðeins um fjóra tíma að taka lest úr miðborg Helsinki til Sankti Pétursborgar.

FRÍVERSLUN: PÁSKAFERÐ TIL SANKTI PÉTURSBORGAR