Snjallsímaforrit fyrir ferðalagið

Vegabréf, greiðslukort og farsími eru sennilega þeir þrír hlutir sem enginn ferðamaður vill gleyma heima. Hér eru nokkur forrit sem geta gert snjallsímann að ennþá betri ferðafélaga.

Smekklegar ferðabækur

Það er sennilega óhætt fullyrða að ferðamenn smelli oftar af en þeir sem sitja heima og varla hefur dregið úr myndagleðinni eftir að snjallsímarnir komu til sögurnar. Myndunum deilum við svo oft með fólkinu heima á Facebook eða Instagram. Steller er hins vegar forrit fyrir þá sem vilja leggja meiri metnað í ferðafréttirnar. Hér er hægt að búa til myndabækur með stuttum textum í látlausum umbúðum að hætti hússins. Þegar bókin er tilbúin til útgáfu er hægt að deila henni á samfélagsmiðlunum, senda hana í tölvupósti á vel útvalda eða bara halda henni fyrir sjálfan sig.

Heimasíða Steller

Fyrir einmana hótelgesti

Sumir eiga erfitt með að vera einir á ferð og hafa engan til að tala við í morgunmatnum eða á hótelbarnum. Forritið HelloTel kemur þessum hópi fólks til bjargar með því að tengja saman gesti á ákveðnu hóteli eða á ákveðnu svæði. Forritinu svipar því til stefnumótaappsins Tinder og hefur fengið á sig nokkuð vafasaman stimpil.

Heimasíða Hellotel

Þjórfé og margskiptir reikningar

Það krefst dálítillar hugarleikfimi að reikna út hversu mikið þjórfé á að gefa í útlöndum og það er ekki alltaf einfalt að skipta reikningi jafnt á milli nokkurra. Appið Tipulator leysir þessi tvö vandamál því þar er hægt að setja inn upphæð reikningins, velja prósentutölu fyrir þjórfé og deila niðurstöðunni niður á fjölda greiðenda á skemmtilegri hátt en vasareikninirinn býður upp á.

Ferðamyndband

Með Cameo í símanum er hægt að útbúa allt að tveggja mínútna löng myndbönd sem eru samansett úr sex sekúndna myndskeiðum. Það má því gera einum degi eða jafnvel heilli ferð skil í einu vídeói. Notandinn getur svo skreytt verkin með tónlist, texta og alls kyns grafík.

Heimasíða Cameo

Ferðagögnin

Í stað þess að prenta út staðfestingar frá flugfélögum, hótelum og bílaleigum þá sendir þú þær til Tripit og þær birtast í framhaldinu í forritinu í réttri tímaröð. Allar tímasetningar og bókunarnúmer eru því aðgengilegar á einum stað.

Heimasíða Tripit

Almenningssamgöngur

Það er hægt að spara peninga og tíma í stórborgunum með því að taka strætó og lestir. Það getur hins vegar verið flókið fyrir aðkomufólk að átta sig á strætóleiðum en þar kemur Citymapper forritið að góðu gagni og finnur út úr því hvernig hægt er að ferðast á milli staða að hætti heimamanna. Þeir sem eru hjólandi geta líka fengið upplýsingar um bestu leiðina með þessu forriti. Google maps hefur líka álíka góðar upplýsingar en það er ánægjulegt að geta stundum notast við eitthvað annað er forrit frá Google. Enn sem komið er þá eru aðeins nokkrar borgir inn í Citymapper.

Heimasíða Citymapper