Vilja að ríkið taki yfir fríhafnir til að draga úr áfengissölu

Það er meirihluti fyrir því á norska þinginu að færa vínsölu á þarlendum flugvöllum í hendurnar á ríkinu. Ríkisstjórnin er á annarri skoðun.

 

 

Það er meirihluti fyrir því á norska þinginu að færa vínsölu á þarlendum flugvöllum í hendurnar á ríkinu. Ríkisstjórnin er á annarri skoðun.

Áfengissala á norskum flugvöllum hefur aukist um nærri þriðjung í ár og fjórða hver flaska sem selst af sterku áfengi í Noregi kemur úr fríhöfn samkvæmt frétt Aftenposten. Þar er haft eftir Torgeir Micaelsen, þingmanni Verkamannaflokksins, að vínsala í fríhöfnum sé orðin alltof umsvifamikil og varla sé hægt að fara um Oslóarflugvöll nema að lenda fyrir framan hillu fulla af áfengi. Torgeir telur að með því að færa vínsöluna yfir til Vinmonopol, áfengisverslunar norska ríkisins, verði hægt að hafa betri stjórn á markaðssetningu á áfengi í fríhöfnum. Meirihluti norskra þingmanna er á sömu skoðun samkvæmt frétt Aftenposten en ríkisstjórnin vill standa vörð um núverandi fyrirkomulag.

Aukin ferðagleði skilar sér í meiri veltu

Fyrir áratug síðan tók fyrirtækið Travel Retail Norway við rekstri fríhafna í Noregi af SAS flugfélaginu. Talið er að þessi verslunarrekstur hafi skilað eigendum Travel Retail Norway um tveimur milljörðum norskra króna í hagnað síðan árið 2005. Hefur hlutdeild fríhafnarverslanna á norska áfengismarkaðinum aukist töluvert á þeim tíma og er hún í dag um fimmtán af hundraði. Ein helsta ástæðan fyrir því er meðal annars sú að Norðmenn eiga oftar ferð um flugvelli nú en áður þar sem utanlandsferðir eru orðnar mun tíðari.