Áætlun næsta árs óbreytt hjá WOW air

Forsvarsmenn WOW air segja úrskurð EFTA dómstólsins í gær vera mjög jákvæðan og vonast til að dómsniðurstaðan fylgi sömu línu. WOW myndi þó ekki breyta núverandi áætlun til að taka upp sömu brottfarar- og komutíma og Icelandair notar.

 

 

Forsvarsmenn WOW air segja úrskurð EFTA dómstólsins í gær vera mjög jákvæðan og vonast til að dómsniðurstaðan fylgi sömu línu. WOW myndi þó ekki breyta núverandi áætlun til að taka upp sömu brottfarar- og komutíma og Icelandair notar.

Í febrúar í fyrra sendu forsvarsmenn WOW air erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar á afgreiðslutímum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vildu þeir fá leyfi til tengja saman flug milli Evrópu og N-Ameríku á sömu tímum og Icelandair gerir í dag. En síðarnefnda félagið fullnýtir alla þá brottfarar- og komutíma sem eru í boði á þessum ákveðnum tímum dags.

Samkeppniseftirlitið tók undir kröfur WOW air og fór fram á það við Isavia að tryggja félaginu tvo afgreiðslutíma við flugstöðina að morgni og seinnipartinn til að geta hafið flug til Bandaríkjanna. Málinu var áfrýjað og óskaði héraðsdómur eftir áliti EFTA dómstólsins á því hvort íslensk yfirvöld geti farið á svig við alþjóðlegar reglur um úthlutun flugtíma. Samkvæmt þeim má ekki svipta flugfélög flugtímum nema þeir séu illa nýttir.

Aðeins íhlutun ef sýnt er fram á samkeppnishömlur eða misnotkun

Niðurstaða EFTA dómstólsins var birt í gær og þar segir að m.a. að samkeppnisyfirvöld hér á landi megi beina fyrirmælum um úthlutun afgreiðslutíma til flugrekenda, í því skyni að efla samkeppni. Þar segir jafnframt, „…íhlutun opinberra yfirvalda verði að vera studd ákvörðun þar sem bent er á tiltekin áhyggjuefni á grundvelli samkeppnishamla, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu eða reglna um samruna fyrirtækja.“

Segja Samkeppniseftirlitið fá meiri heimildir

„Niðurstaðan er mjög jákvæð fyrir WOW air og við vonum að dómsniðurstaðan muni endurspegla hana. Þetta þýðir, að okkar mati, að Samkeppniseftirlitið hefur meiri heimildir til íhlutunar en áður var talið og geti tekið ákvarðanir sem áður gátu ekki komið til skoðunar. Þetta staðfestir líka réttmæti þeirrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að grípa til íhlutunar. Svo er einnig jákvætt að ekki þurfi samkvæmt þessu að beina málum að Isavia sem áður lenti þarna á milli,“ segir í svari WOW air um niðurstöðu dómstólsins í Lúxemborg. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins tók í svipaðan streng í gær.

Flugtímar sumarsins standa

Brátt mun héraðsdómur taka upp þráðinn í deilunni um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli og einnig er von á nýjum úrskurði frá Samkeppniseftirlitinu varðandi þessi sömu mál. Aðspurð um hvort WOW air myndi falla frá núverandi flugtímum til að geta tekið upp sömu tíma og Icelandair nýtir í dag segir í svari félagsins að áætlun WOW air fyrir næsta ár verði óbreytt. Það er í takt við fyrri yfirlýsingar stjórnenda félagsins sem hafa lýst yfir ánægju með núverandi flugáætlun.