Taka flugáætlanir stöðugum breytingum og hver er þá réttur farþega?

Upplýsingafulltrúi WOW air segir að flugáætlanir flugfélaga taki stöðugum breytingum.
Forsvarsmenn easyJet og Icelandair taka ekki undir það. 

Upplýsingafulltrúi WOW air segir að flugáætlanir flugfélaga taki stöðugum breytingum. Forsvarsmenn easyJet og Icelandair taka ekki undir það.

Eftir áramót mun WOW air draga töluvert úr flugi til Kaupmannahafnar líkt og Túristi greindi frá. Í frétt Viðskiptablaðsins um þessar breytingar segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, að engar sérstakar ástæður séu fyrir fækkun ferðanna og flugáætlanir flugfélaga taki stöðugum breytingum. Ef það er raunin að flugáætlanir breytist reglulega þá flækir það skipulagningu ferðalaga og getur valdið flugfarþegum fjárhagstjóni þó þeir fái farmiðann endurgreiddann. Til dæmis þarf stundum að greiða fyrir breytingar á gististöðum og bílaleigum og eins geta tengiflug farið í súginn.

Þrátt fyrir þennan mögulega skaða þá þurfa flugfélög ekki að greiða farþegum sínum bætur ef flugi er aflýst með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Ef fyrirvarinn er skemmri geta farþegar átt rétt á skaðabótum upp á 38.500 til 92.500 krónur samkvæmt upplýsingum á vef Samgöngustofu.

Segja breytingar fátíðar

Í síðasta mánuði stóðu easyJet, Icelandair og WOW air fyrir um níu af hverjum tíu brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Talsmenn samkeppnisaðila WOW air taka ekki undir þá fullyrðingu að flugáætlanir flugfélaga breytist stöðugt. „Við gerum umfangsmiklar rannsóknir áður en við hefjum flug til nýrra staða til að tryggja að langstærsti hluti flugleiða okkar njóti vinsælda til lengri tíma og til að lágmarka breytingar á útgefinni flugáætlun“, segir Andy Cockburn, upplýsingafulltrúi easyJet. Guðjón Arngrímsson, frá Icelandair, segir félagið ekki gera reglulegar breytingar á sinni áætlun.

Viðbót kl. 10:18

Svanhvít Friðriksdóttir, segir eftirfarandi í svari til Túrista: „Að sjálfsögðu eru ekki stöðugar breytingar á flugáætlunum með skömmum fyrirvara og WOW air hefur frá upphafi lagt áherslu á að gera sem minnstar breytingar eftir að áætlun hefur verið kynnt. Það sem ég átti við (í viðtali við Viðskiptablaðið, innsk. blm) og hefur misskilist er að flugfélög gera stöðugar breytingar á milli ára. Bæta í á sumum stöðum og draga úr á öðrum stöðum. Þetta fer eftir framboði, eftirspurn, nýtingu flugflotans o.s.frv.“