Delta fær leyfi fyrir nýrri flugleið til Íslands

Síðustu sumur hefur eitt stærsta flugfélag heims boðið upp á áætlunarflug hingað frá New York. Næsta sumar gætu umsvif fyrirtækisins aukist þónokkuð hér á landi með opnun nýrrar flugleiðar. MEIRA

 

 

Síðustu sumur hefur eitt stærsta flugfélag heims boðið upp á áætlunarflug hingað frá New York. Á næsta ári gætu umsvif fyrirtækisins aukist þónokkuð hér á landi með opnun nýrrar flugleiðar.

Áður en bandaríska flugfélagið Delta hóf Íslandsflug sumarið 2011 var Icelandair eina félagið sem bauð upp á áætlunarflug frá Keflavík til N-Ameríku. Delta hefur fjölgað ferðum sínum hingað frá New York jafnt og þétt síðustu ár og nú hafa forsvarsmenn félagsins fengið leyfi á Keflavíkurflugvelli fyrir daglegu áætlunarflugi hingað frá bandarísku borginni Minneapolis yfir sumarmánuðina. Icelandair hefur um langt árabil flogið til borgarinnar yfir aðalferðamannatímann.

Það er því útlit fyrir samkeppni á þessari flugleið í sumar en talskona Delta hefur ekki getað staðfest við Túrista að félagið muni nota alla þá afgreiðslutíma sem það hefur fengið úthlutaða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á næsta ári.

Bandaríkjamenn næst fjölmennastir

Það sem af er ári hafa um rúmlega 135 þúsund bandarískir ferðamenn innritað sig í flug á Keflavíkurflugvelli. Nemur aukningin frá því í fyrra um 27 prósentum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Aðeins Bretar eru fjölmennari hér á landi en þeir sækja í auknum mæli í Íslandsferðir yfir veturinn. Yfir sumarmánuðina eru Bandaríkjamenn því fjölmennasti hópurinn hér á landi og með tíðari ferðum milli Íslands og Bandaríkjanna gæti þeim fjölgað enn frekar. En eins og áður hefur komið fram mun WOW air hefja flug til Bandaríkjanna á næsta ári og í lok maí mun Icelandair bæta borginni Portland við leiðakerfi sitt.