Draga úr Kaupmannahafnarflugi

Það stóð til að vélar WOW air myndu fljúga daglega til Kaupmannahafnar eftir áramót.
Ferðunum hefur hins vegar verið fækkað fyrstu mánuði næsta árs.

Það stóð til að vélar WOW air myndu fljúga daglega til Kaupmannahafnar eftir áramót. Ferðunum hefur hins vegar verið fækkað fyrstu mánuði næsta árs.

Kaupmannahöfn er einn vinsælasti áfangastaður íslenskra ferðamanna og heldur borgin sessi sínum þó framboð á flugi héðan hafi aukist. Þannig hafa Íslendingar bókað um tíund fleiri gistinætur í borginni í ár sem er álíkal aukning og hefur orðið í utanferðum landans á sama tímabili. Flugið hingað er líka reglulega á lista yfir þá tíu áfangastaði sem oftast er flogið til frá Kaupmannahafnarflugvelli.

Í byrjun árs fékk norska flugfélagið Norwegian leyfi fyrir áætlunarflugi milli Keflavíkur og Kastrup en ekkert varð úr þeim áætlunum. Icelandair og WOW air verða því áfram ein um þessa flugleið. Yfir vetrarmánuðina býður Icelandair upp á allt að fimmtán ferðir í viku til höfuðborgar Danmerkur en ferðir WOW air eru sjö til tíu. Í flugáætlun WOW air er gert ráð fyrir daglegu morgunflugi til Kaupmannahafnar frá Keflavík fyrstu þrjá mánuði næsta árs en í bókunarvélinni á heimasíðu félagsins hefur ferðunum fækkað niður í allt að þrjár í viku. Næsta febrúar mun WOW air því bjóða upp á sextán ferðir til Kaupmannahafnar en þær voru tuttugu og fjórar í febrúar í ár. Það jafngildir þriðjungs samdrætti. Ekki fást skýringar á þessum breytingum hjá WOW air.

Icelandair hefur styrkt stöðu sína í Kaupmannahöfn

Líkt og Túristi greindi frá þá fór markaðshlutdeild Icelandair í Kaupmannahafnarfluginu niður í allt að 55 prósent eftir að Iceland Express hóf starfsemi. Icelandair hefur hins vegar styrkt stöðu sína síðustu ár og í fyrra fóru um þrír af hverjum fjórum farþegum á þessari flugleið með Icelandair. Hafa ber í huga að leiðakerfi Icelandair byggir á flugi yfir hafið með millilendingu í Keflavík og hluti farþega félagsins í Kaupmannahöfn er því ekki á leið til Íslands heldur til N-Ameríku.

Kaupmannahöfn er sú borg sem næst oftast er flogið til frá Keflavík. Aðeins er flogið oftar til London samkvæmt mánaðarlegum talningum Túrista.