Dregur úr Berlínarreisum Íslendinga

Fyrstu tíu mánuði ársins bókuðu íslenskir ferðamenn fimmtungi færri hótelnætur í Berlín en á sama tíma í fyrra. Á næsta ári eykst samkeppni í flugi héðan til höfuðborgar Þýskalands.

 

 

 

Fyrstu tíu mánuði ársins bókuðu íslenskir ferðamenn fimmtungi færri hótelnætur í Berlín en á sama tíma í fyrra. Á næsta ári eykst samkeppni í flugi héðan til höfuðborgar Þýskalands.

Í fyrra var í fyrsta skipti boðið upp á beint flug héðan til Berlínar allt árið um kring. Íslenskir ferðamenn tóku greinilega nýbreytninni fagnandi því gistinætur Íslendinga í Berlín voru 41 prósent fleiri á síðasta ári en þær voru 2012.

WOW air er eina félagið sem sinnir flugi til Berlínar yfir veturinn en á sumrin fljúga bæði Airberlin og German Wings hingað frá þýsku höfuðborginni.

Ríflega fimm þúsund færri gistinætur

Í ár hefur dregið nokkuð úr ferðum Íslendinga til Berlínar því samkvæmt nýjum tölum frá ferðamálaráði borgarinnar þá bókuðu íslenskir ferðamenn fimmtungi færri gistinætur í Berlín fyrstu tíu mánuði ársins í samanburði við sama tímabil í fyrra. Voru gistinæturnar 22.561 í janúar til október í ár en 27.917 á sama tíma í fyrra. Almennt hefur hótelgestum í borginni fjölgað um 5,9 prósent og utanferðir Íslendinga eru einnig tíðari nú en í fyrra.

Aukin samkeppni á næsta ári

Forráðamenn Iceland Express höfðu á sínum tíma áform um að fljúga til Berlínar allt árið en féllu frá þeim. WOW air hefur hins vegar boðið upp á flug til borgarinnar allt frá stofnun og aðeins fengið samkeppni frá þýskum flugfélögum yfir sumarmánuðina. Á því verður hins vegar breyting á næsta ári því þá mun Airberlin fljúga hingað frá Tegel flugvelli allt að sex sinnum í viku og starfrækja flugleiðina frá byrjun maí og fram í lok október.

German Wings heldur hins vegar áfram að fljúga hingað yfir sumarmánuðina og fram í miðjan september.