EFTA: Svipta má flugfélög afgreiðslutímum til efla samkeppni

Íslenskar samkeppnisreglur geta vegið þyngra en alþjóðlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum að mati EFTA dómstólsins. Málið er á ný komið á borð íslenskra dómstóla.

 

 

 

Íslenskar samkeppnisreglur geta vegið þyngra en alþjóðlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum að mati EFTA dómstólsins. Málið er á ný komið á borð íslenskra dómstóla.

Fyrir rúmu ári síðan fór Samkeppniseftirlitið fram á það við Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, að WOW air fengi tvo af brottfarartímunum sem Icelandair nýtir fyrir flug til Bandaríkjanna. Forsvarsmenn Isavia áfryjuðu úrskurðinum og töldu að þeim væri óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krafðist þar sem úthlutun afgreiðslutíma færi eftir alþjóðlegum reglum.

Síðan þá hefur málið farið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnsimála, íslenska dómstóla og nú síðast EFTA dómstólinn. Í morgun birti dómurinn í Lúxemburg niðurstöðu sína og kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að samkeppnisyfirvöld hér á landi megi beina fyrirmælum um úthlutun afgreiðslutíma til flugrekenda, í því skyni að efla samkeppni.

Samkeppniseftirlitið getur þá væntanlega krafist þess að flugfélag láti af hendi afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli ef það er talið auka samkeppni.

„Við tökum þessa niðurstöðu til skoðunar með lögmönnum okkar og svo kemur málið væntanlega aftur til meðferðar íslenskra dómstóla“, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður um viðbrögð við dómnum.

Í takt við væntingar Isavia

„Niðurstaða EFTA dómstólsins er í samræmi við væntingar Isavia og kemur ekki á óvart. Í henni er lögð áhersla á samræmdar EES reglur og að samkeppnisyfirvöld aðildarríkjanna geti ekki gripið inn í þær og úthlutað afgreiðslutímum eftir eigin höfði. Fyrirmælum verður ekki beint til samræmingarstjóra eða rekstraraðila flugvallar en mætti beina til flugfélags. Það gæti þó aðeins gerst ef um væri að ræða brot á samkeppnisreglum þ.e. misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða ólöglegt samráð“, segir í svari Isavia til Túrista vegna málsins.

Héraðsdómur fær nú málið á ný til umfjöllunar.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í upplýsingafulltrúa WOW air og Samkeppniseftirlitið hyggst senda út fréttatilkynningu vegna málsins.