Eldsneytisgjaldið lækkar og flugmiðarnir líka

Olíuverð hefur lækkað töluvert í ár en eldsneytisgjöld sumra flugfélaga vega þungt í farmiðaverðinu. Um mánaðarmótin lækkuðu forsvarsmenn Icelandair gjaldið um fimmtán prósent.

Eldneytisgjöld eru hluti af farmiðaverði margra flugfélaga og hjá Icelandair nemur þetta gjald stundum meira en helmingi af verði flugmiðans. Í ár hefur olíuverð hins vegar lækkað umtalsvert og er lægra í dag en það hefur verið í rúm tvö ár. Í haust hafði Túristi það eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að eldsneytisgjald félagsins sé reglulega tekið til endurskoðunar og ef kostnaður lækki þá komi það fram í fargjöldunum.

Miðaverðið niður sem nemur lækkuninni

Um mánaðarmótin gekk það eftir því þá lækkaði eldsneytisgjaldið úr 9.200 kr. í 7.900 kr. ef flogið er til Evrópu en úr 16.400 kr. í 13.900 kr. ef ferðinni er heitið til N-Ameríku. Lækkunin nemur því um fimmtán prósentum og heilt yfir eiga lægstu fargjöld að lækka sem nemur eldsneytisálagsbreytingunni samkvæmt upplýsingum frá Icelandair.

Flugfargjöld eru hins vegar síbreytileg hjá Icelandir og öðrum flugfélögum og til að mynda sýndu niðurstöður nýjustu verðkönnunar Túrista að fargjöld til Kaupmannahafnar, Oslóar og London hafa lækkað mikið milli ára hjá öllum flugfélögum.

Fimmtungi sparneyttari vélar

Á síðasta ári gengu forsvarsmenn Icelandair frá kaupum á nýjum Boeing þotum og verða þær fyrstu afhentar á fyrri helmingi ársins 2018. Þegar tilkynnt var um kaupin kom fram að nýju vélarnar verða um fimmtungi sparneyttari en núverandi flugfloti Icelandair. Nýju og gömlu þoturnar verða notaðar samhliða í framtíðinni.