Fengu ekki ásættanlega tíma á Keflavíkurflugvelli

Talsmaður bandaríska flugfélagsins Delta segir að félaginu hafa ekki boðist viðunandi tímar fyrir flug hingað frá Minneapolis. Félagið mun því ekki bæta við flugleiðum til Íslands á næsta ári.

Síðastliðin sumur hefur bandaríska flugfélagið Delta boðið upp á áætlunarflug hingað frá New York og til stóð að bæta við ferðum frá Minneapolis á næsta ári. Úr því verður hins vegar ekki þar sem félaginu buðust ekki ásættanlegir afgreiðslutímar á Keflavíkurflugvelli samkvæmt því sem kom fram í frétt Rúv.

Eftirsóttir dagspartar

Icelandair fyllnýtir þá tíma sem bjóðast fyrir flug til og frá löndum utan Schengen svæðisins í morgunsárið og seinnipartinn. Samkvæmt alþjóðlegum reglum má ekki svipta flugfélög tímum sem eru í notkun en nýlegur úrskurður EFTA dómstólsins í máli WOW air, Isavia og Icelandair gæti þó haft í för með sér breytingar. Stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar myndi hins vegar gera fleirum kleift að fljúga til og frá landinu á þessum ákveðnu tímum og um leið auka möguleika Icelandair.

Fylgjast með ferðamannastraumnum til Íslands

Olivia Cullis, talskona Delta, segir í viðtali við Túrista að stjórnendur félagsins muni áfram að kanna möguleika á að efla leiðakerfi sitt, þar á meðal á Íslandi. En í dag býður Delta upp á flug til Evrópu frá New York, Atlanta, Minneapolis, Detroit og Seattle. Aðspurð um hvort það komi til greina að starfrækja flugleiðina hingað frá New York allt árið um kring segir Olivia að stjórnendur Delta séu meðvitaðir um aukna ásókn í ferðir til Íslands utan háannatíma og áfram verði fylgst með því hvernig eftirspurnin þróast.