Beint flug til Bandaríkjanna í ár

Árið 2015 verður flogið héðan til ellefu bandarískra flugvalla. Áfangastaðirnir hafa ekki áður verið jafn margir.                                          

Árið 2015 verður flogið héðan til ellefu bandarískra flugvalla. Áfangastaðirnir hafa ekki áður verið jafn margir.

Það eru ekki til neinar opinberar tölur um hversu margir Íslendingar ferðast til Bandaríkjanna en þar sem utanferðum landans hefur fjölgað töluvert síðustu ár má gera ráð fyrir að sífellt fleiri Íslendingar fari í frí vestur um haf. Áætlunarferðirnar þangað eru líka orðnar mun tíðari en þær voru fyrir nokkrum árum síðan og í vor bætist verulega við framboð á flugferðum þangað.

Þrjú flugfélög á leið yfir hafið

Áður en Iceland Express hóf flug til Bandaríkjanna sumarið 2010 var Icelandair eina félagið sem bauð upp á reglulegar ferðir þangað. Bandaríska flugfélagið Delta hóf svo Íslandsflug sitt árið eftir og hefur allar götur síðan flogið allt að daglega yfir sumartímann hingað frá John F. Kennedy flugvelli í New York. Útlit er fyrir að bandaríska félagið bæti við flugi hingað frá Minneapolis á næsta ári. Þá mun WOW air einnig hefja flug til Bandaríkjanna og fljúga til flugvallanna við Boston og Baltimore. Sá síðarnefndi er stutt frá höfuðborg Bandaríkjanna. Í maí bætir Icelandair svo níundu bandarísku borginni við leiðakerfi sitt þegar félagið hefur áætlunarflug til Portland í norðvesturhluta landsins. Þar með fljúga vélar Icelandair til tíu flugvalla í Bandaríkjunum.

Umsvifamikil í Boston

Frá og með vorinu geta farþegar í Keflavík valið á milli fjögurra ferða á dag til Boston. Það er meira úrval en farþegum á stærstu flugvöllum Evrópu stendur til boða og til að mynda er ekki flogið til Boston frá neinum öðrum norrænum flugvelli en þeim íslenska. Eins og gefur að skilja er ferðagleði Íslendinga ekki helsta ástæðan fyrir þessum tíðum ferðum og vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar meðal íbúa Massachussets fylkis skýrir ekki heldur þessa loftbrú á milli borganna. Ástæðan er fyrst og fremst sú að stór hluti farþega Icelandair er fólk á leið á milli Evrópu og Norður-Ameríku og millilendir aðeins á Íslandi á leið sinni yfir hafið. WOW air hyggst einnig ná til þessa hóps.

Þær bandarísku flughafnir sem flogið verður til á næsta ári frá Keflavíkurflugvelli:

Anchorage: Icelandair

Baltimore/Washington: WOW air

Boston Logan: Icelandair og WOW air

Denver: Icelandair

John F. Kennedy í New York: Delta og Icelandair

Minneapolis/St. Paul: Icelandair og hugsanlega Delta

Newark í New Jersey/New York: Icelandair

Orlando Sanford: Icelandair (Orlando International Airport frá og með haustinu)

Portland: Icelandair

Seattle Tacoma: Icelandair

Washington Dulles: Icelandair