Flugkoddar fyrir þá sem ætla að steinsofna um borð

Finnst þér erfitt að sofna í flugvél? Hér er þá kannski lausn á vandanum en hún kostar sitt og er kannski ekki fyrir farþega sem er mjög umhugað um útlitið.

Stór hluti þeirra erlendu flugfélaga sem fljúga frá Keflavík bjóða aðeins upp á brottfarir í kringum miðnætti. Vélarnar lenda á meginlandi Evrópu í morgunsárið og þá er nú betra að hafa náð nokkra tíma dúr. Sömu sögu er að segja þegar flogið er heim frá Ameríku.

Mörgum reynist hins vegar erfitt að festa svefn um borð og ekki hjálpar að lágfargjaldaflugfélögin bjóða sjaldnast upp á teppi og kodda. Uppblásnir höfuðpúðarnir hafa lengi verið á markaðnum og það sjást alltaf nokkrir farþegar með svoleiðis um borð en kannski styttist í að þeir hverfi því nú eru komnir á markað nýir ferðakoddar sem kallast Ostrich. Reyndar væri nær að kalla þetta húfur því það þarf að smeygja þeim utan um höfuðið. Sá stærsti er, eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, ansi fyrirferðamikill og kostar sá um 12 þúsund krónur. Ostrich býður einnig upp á minni týpur af koddanum eins og sjá má á heimasíðu fyrirtækisins.

Hér fyrir neðan er kynning á þessum sérkennilega kodda.

Ostrich Pillow by Kawamura-Ganjavian from Dezeen on Vimeo.