Gistináttagjald í þriðju hverri borg

Fjögurra manna fjölskylda sem gistir á hóteli í París, Róm eða New York í nokkra daga þarf að greiða aukalega þúsundir króna í lok dvalar.

 

 

 

Fjögurra manna fjölskylda sem gistir á hóteli í París, Róm eða New York í nokkra daga þarf að greiða aukalega þúsundir króna í lok dvalar. Víða eru hótelgestir skattlagðir sérstaklega en ekki á íslenskum gististöðum, jafnvel þó virðisaukaskatturinn sé í lægri kantinum hér á landi.

Það er algengt að hótelgestir borgi sérstakt gistináttagjald í þeim borgum sem flogið er beint til frá Íslandi. Næsta sumar verður til að mynda boðið upp á áætlunarflug frá Keflavík til 59 borga í Evrópu og N-Ameríku og í tuttugu þeirra þurfa hótelgestir að borga sérstakan gistináttaskatt samkvæmt athugun Túrista. Í langflestum tilfellum bætist gjaldið við hótelreikninginn í lok dvalar en stundum er það innifalið í gistiverðinu sem hótelin gefa upp.

Oft er skatturinn lagður á hvern gest og ræðst upphæðin af gæðum hótelsins. Þannig borgar ferðamaður á fjögurra stjörnu hóteli í Róm aukalega um 900 krónur (6 evrur) fyrir hverja nótt. Hjón sem gista í borginni í fimm nætur greiða því um níu þúsund krónur í gistináttagjald. Í New York er skatturinn hins vegar lagður á hvert herbergi og nemur hann um 550 til 1150 krónum (3,5 til 7,5 dollarar) á nótt. Á öðrum stöðum er gjaldið hlutfallslegt, til dæmis í Amsterdam og Berlín þar sem um 5 prósentum er bætt ofan á hótelverðið að viðbættum virðisaukaskatti. Fjármagnið sem fæst með þessari álagningu á hótelgesti er víða eyrnamerkt uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hver gistináttaskatturinn er í þeim 20 borgum sem flogið er beint til frá Keflavík og hótelgestir eru skattlagðir sérstaklega. Virðisaukaskatturinn er einnig tilgreindur en til samanburðar má geta að skattur á gistingu er 11 prósent hér á landi.

Borg Gistináttagjald* Virðisaukaskattur
Amsterdam 5,5% ofan á heildarverð. 6%
Barcelona 115-380kr. (0,75-2,5€) á gest hverja nótt. 10%
Basel 445kr.(3,5CHF) á gest hverja nótt. 3,8%
Berlín 5% ofan á heildarverð. 7%
Bologna 150-600kr. (1-4€) á gest hverja nótt. 10%
Brussel 330-1340kr. (2,15-8,75€) á herbergi. 6%
Genf 350-600kr. (2,8-4,75CHF) á gest hverja nótt. 3,8%
Halifax 2% ofan á heildarverð 15%
Hamborg 80-600kr. (0,5-4€) á gest hverja nótt. 7%
Khania 0,5% ofan á heildarverð. 6,5%
Lyon 160-250kr. (1,1-1,65€) á gest hverja nótt. 10%
Mílanó 300-750kr. (2-5€) á gest hverja nótt. 10%
New York 430-930kr. (3,5-7,5$) á herbergi hverja nótt. 14,75%
París 30-250kr (0,2-1,65€) á gest hverja nótt. 10%
Portland 2% ofan á heildarverð. 12,5%
Róm 450-1070kr. (3-7€) á gest hverja nótt. 10%
Seattle 2% ofan á heildarverð. 15,6%
Toronto 3% ofan á heildarverð. 13%
Vínarborg 3,2% ofan á heildarverð 10%
Zurich 320kr. (2,5CHF) á gest hverja nótt. 3,8%

*Upplýsingar um gistináttagjald eru fengnar á hótelbókunarsíðum eða hjá ferðamálaráðum borganna.