Hóteltékk: The Bonham í Edinborg

Í höfuðborg Skotlands er tilvalið að tékka sig inn á klassískt gistihús og komast í betra samband við borgina en gestir stóru hótelanna komast í. The Bonham er ljómandi kostur í New Town.

 

 

Í höfuðborg Skotlands er tilvalið að tékka sig inn á klassískt gistihús og komast í betra samband við borgina en gestir stóru hótelanna komast í. Gistihúsin eru nefnilega oft aðeins fyrir utan helstu ferðamannastaðina, jafnvel inn í íbúðahverfunum, gestirnir eru færri sem býður upp á persónulegri þjónustu. Það er því hægt að venja komur sínar á hverfisbar í fríinu og fara á veitingastaði þar sem heimamenn eru í meirihluta. The Bonham er góður kostur fyrir þá sem vilja verja nokkrum dögum í Edinborg ögn frá ferðamannagildrunum við Princes Street og á Kastalahæðinni.

Herbergin

Líkt og aðrar vistaverur The Bonham þá eru herbergin búin hlutlausum húsgögnum í dökkum litum. Rúmin er stór og þægileg og baðherbergin hefðbundin. Það er því ekkert sem stingur í stúf eða kemur sérstaklega á óvart við herbergin. Öllu er haldið vel við.

Þeir sem fá herbergi sem snýr út í garðinn geta fengið ljómandi útsýni yfir New Town hverfið. Hinir fá útsýni út á torgið fyrir fram hótelið.

Staðsetningin

The New Town er eitt af elstu hverfum Edinborgar og þar eru nær óteljandi lengjur af gráum reisulegum húsum og eru mörg þeirra nýtt fyrir skrifstofur eða gistiheimili.

Það tekur um korter að ganga frá The Bonham að Princes Street en reikna má með um hálftíma göngu upp að Edinborgarkastala. Í The New Town er úrval af skemmtilegum veitingastöðum, sérstakleg í þeim hluta sem er næst miðborginni, t.d. við Hannover street og Frederik street. Frá The Bonham er hægt að ganga að National Museum of Modern Art og Dean Museum sem eru aðeins fyrir utan miðborgina.

Maturinn

Það er þess virði að borða alla vega einu sinni morgunmat á hótelinu. Hægt er að velja á milli nokkurra rétta á matseðli og óhætt að mæla með Egg Benedict með laxi.

Verðið

Það kostar að lágmarki um 20 þúsund (um 100 til 120 pund) að gista á tveggja manna herbergi á The Bonham. Þetta er því gisting í milliverðflokki í skosku höfuðborginni. Það eru reglulega í boði tilboð á gistingunni á The Bonham (sjá hér). Heimasíða The Bonham