Íslensku flugfélögin áfram í dvala á jóladag

Hingað til hefur allt millilandaflug frá Keflavík legið niðri á jóladag en svo verður ekki í dag. Forsvarsmenn Icelandair og WOW air segja fáa vilja vera á ferðinni á þessum degi.

 

 

Hingað til hefur allt millilandaflug frá Keflavík legið niðri á jóladag en svo verður ekki í dag. Forsvarsmenn Icelandair og WOW air segja fáa vilja vera á ferðinni á þessum degi.

Um langt árabil hafa flugsamgöngur til og frá landinu stöðvast á jóladag. Á því verður breyting í dag þegar vél á vegum easyJet lendir á Keflavíkurflugvelli seinnipartinn og flýgur tilbaka til Genfar í Sviss um fimm leytið. Fleiri flugferðir eru ekki á dagskrá. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia verða nokkrir tugir starfsmanna á vakt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag sem er sambærilegur fjöldi og venjulega þegar lítil eða engin umferð er um flugvöllinn. „Þannig verður ávallt að viðhalda flugvernd og vera hægt að opna þjónustu við farþega í flugstöðinni með skömmum fyrirvara ef flugvél í yfirflugi þarf að lenda. Auk þess eru starfsmenn í flugturni og úti á flugvellinum ávallt á vakt,“ segir Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Isavia.

Auk starfsmannanna á Keflavíkurflugvelli þá munu rútufyrirtækin Grayline og Kynnisferðir ræsa út mannskap til að flytja farþega til og frá flugstöðinni.

Ekki mikil eftirspurn eftir ferðum í dag

Líkt og Túristi greindi frá þá kostaði um þrefalt meira að kaupa flugmiða hingað frá Sviss í dag en það kostaði að fljúga héðan. Það er vísbending um að mun fleiri muni koma til landsins í dag en fara frá því. „Stefna okkar er að fólk geti flogið með okkur á þeim tímum og til þeirra staða sem það vill. Hingað til hefur ekki verið mikil eftirspurn eftir flugi á jóldag og því hefur það ekki verið í boði. Það er ólíklegt að við setjum slíkt á að öllu óbreyttu,“ segir Birgir Jónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri WOW air, aðspurður hvort fyrirtækið sjái sér hag í að bjóða upp á áætlunarflug á jóladag. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að fáir vilji vera á ferli akkúrat núna og áætlun Icelandair taki mið af því.

Aukin umferð á aðfangadag

Á aðfangadag í fyrra fóru aðeins tvær vélar frá landinu en í gær voru ferðirnar sex talsins og síðasta vélin fór í loftið um hádegi. Á morgun, annan dag jóla, verða brottfarirnar hins vegar 28 talsins enda taka þá öll flugfélög upp hefðbundna áætlun að nýju.