Nærri þrefalt dýrara að fljúga til Íslands en frá á jóladag

Á jóladag mun aðeins ein þota fljúga til og frá landinu og það er mikill munur á fargjaldinu eftir því í hvaða átt farþegarnir fljúga eins og hér má sjá.

 

 

Á jóladag mun aðeins ein þota fljúga til og frá landinu og það er mikill munur á fargjaldinu eftir því í hvaða átt farþegarnir fljúga.

Millilandaflug frá Keflavík hefur ávallt legið niðri á jóladag en á því verður breyting í ár þegar vél breska flugfélagsins easyJet flýgur hingað frá Genf í Sviss og snýr tilbaka tveimur tímum síðar. Ræsa þarf út starfsfólk flugstöðvarinnar til að sinna þessu eina flugi líkt og Túristi greindi frá.

Eina flugleiðin

Breska flugfélagið býður upp á áætlunarflug hingað frá átta flugvöllum en flugleiðin frá Genf er sú eina sem verður starfrækt á jóladag. Andy Cockburn, upplýsingafulltrúi easyJet, segir starfsmenn félagsins hafa skilning á því að í þeim þrjátíu og tveimur löndum sem easyJet starfar séu hátíðarhöldin yfir jólin haldin á mismunandi dögum. Flugfélagið verði hins vegar með starfsemi í Sviss á jóladag til að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna.

Fáir á leið héðan

Af fargjöldunum að dæma þá er mun meiri eftirspurn í Sviss eftir millilandaflugi á jóladag en hér á Íslandi. Í dag þarf til að mynda að borga tæpar 33 þúsund krónur fyrir flugmiða frá Genf til Keflavíkur þann 25. desember en farmiðinn héðan, þennan sama dag, er á um 12 þúsund krónur. Þeir sem vilja innrita farangur borga aukalega fyrir þá þjónustu hjá easyJet.

Það er því útlit fyrir að það verði heldur fáir viðskiptavinir í verslununum og á veitingastöðunum í brottfararsal flugstöðvarinnar á jóladag en öllu fleiri farþegar koma til landsins.Bæði Airport Express og Flugrútan bjóða upp á ferðir til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í tengslum við þetta eina flug.