Niðurstaðan jákvæð að mati forstjóra Samkeppniseftirlitsins

Úrskurður EFTA dómstólsins í deilunni um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli skapar Samkeppniseftirlitinu sterkari grundvöll til að bregðast við samkeppnishindrunum sem stafa af úthlutun afgreiðslutíma.

 

 

 

Úrskurður EFTA dómstólsins í deilunni um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli skapar Samkeppniseftirlitinu sterkari grundvöll til að bregðast við samkeppnishindrunum sem stafa af úthlutun afgreiðslutíma.

Í morgun birti EFTA dómstóllinn úrskurð sinn í deilunni um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli líkt og Túristi greindi frá. Þar segir meðal annars að samkeppnisyfirvöld geti farið fram á það við flugfélög að þau láti af hendi afgreiðslutíma á flugvöllum, t.d. ef þau eru talin hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína.

Fyrir ári síðan fór Samkeppniseftirlitið fram á það við Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, að WOW air fengi tvo af þeim tímum sem Icelandair nýtir í dag. Isavia áfrýjaði málinu og eins og áður segir birti dómstóllinn í Lúxemburg úrskurð sinn í morgun. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir niðurstöðuna skapa eftirlitinu sterkari grundvöll.

„Samkeppniseftirlitið mun nú fara rækilega yfir dóminn og meta áhrif hans á yfirstandandi rannsókn og hugsanlegar frekari rannsóknir sem varða úthlutun afgreiðslutíma. Dómurinn leysir úr réttarágreiningi á þessu sviði og niðurstaða hans er jákvæð í því ljósi því hún skapar eftirlitinu sterkari grundvöll í framtíðinni til þess að bregðast við samkeppnishindrunum sem stafa af úthlutun afgreiðslutíma“, segir Páll Gunnar en vísar að öðru leyti til fréttatilkynningar sem eftirlitið sendi frá sér. Þar segir meðal annars að með dómi EFTA-dómstólsins hafi verið staðfest heimild samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða í tilefni samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum með skammtaðan afgreiðslutíma.

Nýtt mál til skoðunar

Samkeppniseftirlitið er nú með til skoðunar erindi WOW air sem snýr að úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir næsta sumar. Tímunum hefur verið úthlutað og það gæti því farið þannig að raða þyrfti þeim á ný sem myndi valda breytingum á flugáætlunum Icelandair og WOW air. En forsvarsmenn síðarnefnda félagsins hafa einmitt lýst ánægju með núverandi flugtíma.