Segja þróunina á Keflavíkurflugvelli vera mjög jákvæða

Vægi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli hefur breyst töluvert frá því í fyrra og forsvarmenn flugvallarins eru ánægðir með stöðu mála. MEIRA

 

Vægi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli hefur breyst töluvert frá því í fyrra og forsvarmenn flugvallarins eru ánægðir með stöðu mála.

Þó Icelandair og WOW air hafi fjölgað ferðum sínum í síðasta mánuði í samanburði við sama tíma í fyrra þá minnkaði hlutdeild félaganna á Keflavíkurflugvelli milli ára líkt og Túristi greindi frá. Í nóvember í fyrra voru ríflega tvær af hverjum þremur brottförum á vegum Icelandair en hlutfallið var núna 67,8 prósent. Hlutdeild WOW air minnkaði um nærri tíund.

Fleiri áfangastaðir og nýir markhópar

Ein helsta ástæðan fyrir þessum breytingum er þreföldun á umsvifum breska lágfargjaldaflugfélagins easyJet hér á landi. Félagið stóð fyrir ríflega níutíu ferðum héðan til Bretlands og Sviss í síðasta mánuði en í nóvember í fyrra voru brottfarir á vegum easyJet þrjátíu og tvær talsins. „Forsvarsmenn Isavia telja þessa þróun vera mjög jákvæða fyrir rekstur Keflavíkurflugvallar, enda koma þau flugfélög sem eru að auka hlutdeild sína með nýja áfangastaði og nýja markhópa sem leiðir til stækkunar á kökunni. Jafnframt falla umsvif þeirra að mestu utan háannatíma dagsins og mikil aukning hefur orðið að vetrinum“, segir Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, aðspurður hvaða augum stjórnendur fyrirtækisins líti þessar breytingar.

Fá flugfélög á veturna

Umferð um Keflavíkurflugvöll jókst um 22 prósent í nóvember í samanburði við sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Túrista. Sjö flugfélög buðu upp á áætlunarflug í síðasta mánuði en til samanburðar voru þau nærri þrefalt fleiri í júlí. Hér má sjá hvaða flugfélög fljúga hvert frá Keflavík í vetur.