Séríslenskt að gefa flugmiða í jólagjöf?

Síðustu vikur hafa íslensku flugfélögin lagt áherslu á jólagjafabréf í auglýsingum sínum en lítið fer fyrir þess háttar herferðum hjá öðrum evrópskum flugfélögum.

 

 

Síðustu vikur hafa íslensku flugfélögin lagt áherslu á jólagjafabréf í auglýsingum sínum en lítið fer fyrir þess háttar herferðum hjá öðrum evrópskum flugfélögum.

Það var árið 2001 sem Icelandair bauð í fyrsta skipti upp á sérstök gjafabréf fyrir jólin. Allar götur síðan hefur félagið haft þess háttar kort á boðstólum og það hefur WOW air einnig gert síðan félagið hóf starfsemi fyrir þremur árum.

Bjóða kortin aðeins hér á landi

Bæði félög leggja töluverða áherslu á þessi inneignarkort í auglýsingum sínum vikurnar fyrir jól en hvorugt þeirra kynnir þau hins vegar á erlendum heimasíðum sínum. Salan á gjafakortum Icelandair og WOW air einskorðast því við íslenska markaðinn.

Það virðist heldur ekki vera venja hjá nágrannaþjóðunum að gefa flugmiða í jólagjöf. Alla vega er lítil eða engin áhersla lögð á þess gjafakort á heimasíðum stærstu flugfélaganna í Evrópu samkvæmt athugun Túrista.

Seldust best fyrir hrun

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að salan á gjafakortunum hafi verið mest á árunum fyrir hrun en nú sé lögð minni áhersla á þau en áður og önnur tilboð kynnt meira. „Auglýsingar okkar fyrir jólin að þessu sinni byggja þannig á ímyndarauglýsingunni, sem vakið hefur mikla athygli.“ Birgir Jónsson, aðstoðarforstjóri WOW air, segir að sala á kortum félagsins hafi gengið gríðarlega vel í ár og aukist frá því í fyrra.