Íslandsflugið liður í því að styrkja starfsemina á Ítalíu

Vueling og WOW air munu fljúgu reglulega til Rómar frá Keflavíkurflugvelli á næsta ári.
Framkvæmdastjóri Vueling segir félagið geta boðið upp á tengiflug í allar áttir frá Róm.

Vueling og WOW air munu fljúgu reglulega til Rómar frá Keflavíkurflugvelli á næsta ári. Framkvæmdastjóri Vueling segir félagið geta boðið upp á tengiflug í allar áttir frá Róm.

Eitt umsvifamesta lágfargjaldaflugfélag Evrópu, Vueling, mun auka Íslandsflug sitt töluvert á næsta ári. Síðustu tvö sumur hefur félagið flogið hingað frá Barcelona yfir aðalferðamannatímann en á næsta ári verður flugleiðin starfrækt frá byrjun maí og fram til loka október. Auk þess mun Vueling bjóða upp á flug milli Keflavíkur og Katalóníu nú í lok árs og um páskana.

Tengiflug til ítalskra og grískra eyja á einum miða

Vueling er mjög stórtækt í flugi til og frá Barcelona en hefur einnig haslað sér völl í höfuðborg Ítalíu og mun fljúga þaðan til Íslands frá 23. júní og fram til sumarloka. „Þessi viðbót er liður í því að efla starfsstöð okkar í Róm,“ segir Gabriel Schmilovich, framkvæmdastjóri hjá Vueling, í samtali við Túrista. „Íslendingar geta því brátt flogið beint til Rómar og þaðan áfram með Vueling til annarra ítalskra áfangastaða, t.d. Catania, Palermo, Genóa og Tórínó. Einnig geta þeir flogið með okkur til Aþenu í Grikklandi, til fjölmargra grískra eyja og jafnvel til Möltu.“

Schmilovich bendir einnig á að það sama eigi við um þá sem fljúga með félaginu til Barcelona því þaðan geti farþegarnir haldið áfram með Vueling til um 130 áfangastaða. En öfugt við lággjaldaflugfélög eins og easyJet þá geta farþegar Vueling fengið allt flugið á einum miða og eru því á ábyrgð flugfélagsins ef þeir missa af tengifluginu vegna seinkunar á fyrra fluginu.

Þess má geta að WOW air mun fljúga vikulega til Rómar næsta sumar en hingað til hefur ekki verið boðið upp á áætlunarflug til borgarinnar frá Íslandi.

Vueling er í eigu IAG Group sem á og rekur flugfélögin British Airways og Iberia.