Biðja ferðamenn í París um að vera á varðbergi

Utanríkisráðuneyti í nágrannalöndunum hafa gefið út sérstakar ferðaviðvaranir vegna ástandsins í Frakklandi.

 

Utanríkisráðuneyti í nágrannalöndunum hafa gefið út sérstakar ferðaviðvaranir vegna ástandsins í Frakklandi.

Eftir hryðju­verka­árás­irnar á ritstjórnarskrifstofur skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í París hefur viðbragðskerfi franska ríkisins verið hækkað í hæsta hættustig, „alerte attentats“. Í kjölfarið sendu utanríkisráðuneyti Breta, Norðmanna og Þjóðverja út sérstakar viðvaranir til þeirra borgara landanna sem eru í Frakklandi eða á leið þangað.

Vara meðal annars við almenningssamgöngum

Á vef breska utanríkisráðuneytisins segir að hætta sé á frekari hryðjuverkum í Frakklandi og eru breskir þegnar beðnir um að vera á varðbergi og fylgja tilmælum franskra yfirvalda. Norska utanríkisþjónustan tekur í svipaðan streng og bendir fólki sérstaklega á að gæta sín þegar það nýtir sér almenningssamgöngur og er á ferðinni í kringum mannvirki sem gætu verið skotmörk, sérstaklega í París.

Utanríkisráðuneyti Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar hafa ekki gefið út neinar ferðaviðvaranir vegna ástandins í Frakklandi samkvæmt athugun Túrista.