Deilunni um stæðin við flugstöðina er hvergi nærri lokið

flugstod 860

Héraðsdómur vísaði frá máli vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Málið hefur velkst um í kerfinu í nærri tvö ár. Héraðsdómur vísaði fyrir helgi frá máli vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Málið hefur velkst um í kerfinu í nærri tvö ár og ekki er útlit fyrir að niðurstaða fáist á næstu misserum.
Í febrúar árið 2013 sendu forsvarsmenn WOW air erindi til Samkeppnisstofnunnar þar sem kvartað var yfir því hvernig staðið væri að úthlutum afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samkeppniseftirlit tók undir kröfu WOW air og fór fram á það við Isavia að WOW air fengi tvo tíma af þeim tímum sem Icelandair nýtir fyrir flug til og frá Bandaríkjunum að morgni og seinnipartinn. Isavia og Icelandair áfrýjuðu úrskurðinum og svo fór að áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði málinu frá og það gerði héraðsdómur einnig á föstudaginn. Í millitíðinni hafði EFTA dómstóllinn einnig úrskurðað í málinu og niðurstaðan var sú að samkeppnislög hvers lands gætu vegið þyngra en alþjóðlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma. 
Stjórnendur WOW air ætla að áfrýja þessari niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Málið verður því tekið fyrir þar síðar á árinu.

Samkeppniseftirlitið á næsta leik

Málið sem fer á milli dómstóla tekur til úthlutun afgreiðslutíma fyrir sumarið 2014. WOW air sendi álíka erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar næsta sumars en ennþá er beðið eftir úrskurði. Í svari Samkeppniseftirlitsins til Túrista segir að nú liggi fyrir eftirlitinu að meta þýðingu nýlegs dóms EFTA-dómstólsins og nýfallinn dóm héraðsdóms. „M.a. af þeim sökum er ekki ljóst hvenær niðurstöðu er að vænta í máli vegna seinni kvörtunar WOW Air um úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli,“ segir jafnframt í svari Samkeppniseftirlitsins.
Það er því ljóst að deilunni um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli er langt frá því lokið þó héraðsdómur hafi vísað málinu frá á föstudaginn.