Fá hótelherbergi laus í höfuðborginni í febrúar

reykjavik vetur

Það er nánast fullbókað fram á vor á mörgum reykvískum gististöðum.  Það er nánast fullbókað fram á vor á mörgum reykvískum gististöðum og útlit fyrir mikinn fjölda erlendra ferðamanna í febrúar. 
Á síðasta ári var febrúar sá mánuður sem næstfæstir ferðamenn voru hér á landi samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Af hótelbókunum að dæma þá er eftirspurn eftir Íslandsferðum í febrúar hins vegar að aukast. „Á sumum stöðum er nánast fullt að heita, eða nokkur herbergi á stangli laus, en á öðrum er mjög góð nýting en ekki fullbókað,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, aðspurður um ástandið á þeim hótelum og gististöðum í Reykjavík sem eru innan vébanda SAF. Að sögn Skapta eru hvataferðir, árshátíðir og almannar vetrarferðir helsta ástæðan fyrir þessari góðu bókunarstöðu í næsta mánuði og fram á vor.

Fjölmargt á dagskrá

Það verður töluvert um að vera í næsta mánuði í höfuðborginni sem einnig ýtir undir ferðamannastrauminn. Í byrjun febrúar fer fram ferðakaupstefnan Mid-Atlantic og samkvæmt upplýsingum frá Icelandair munu 450 útlendingar koma hingað til lands á vegum félagsins til að taka þátt. Vetrarhátíð Höfuðborgarstofu fer einnig fram fyrstu helgina í febrúar og næstu helgi á eftir er tónlistarhátíð Sónar á dagskrá. Matarfestívalið Food & fun er svo í lok mánaðarins.

Bæta í flugið í febrúar

Í febrúar í fyrra fóru fleiri Bretar en Íslendingar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og var það í fyrsta skipti sem heimamenn voru ekki fjölmennastir líkt og Túristi greindi frá. Ein helsta ástæðan fyrir þessum straumi breskra túrista hingað til lands er sú að bæði Icelandair og easyJet fjölga ferðum sínum til Bretlands í febrúar á sama tíma og breskir skólar gefa vetrarfrí.