Fargjöldin til London, Kaupmannahafnar og Oslóar lækka milli ára

london stor

Ódýrasta fargjaldið til London um miðjan apríl er fjórðungi ódýrara í dag en á sama tíma í fyrra. Það er kostar líka minna að fljúga til Oslóar og Kaupmannahafnar. 
Á þessum degi í fyrra kostaði að lágmarki rúmar 40 þúsund krónur að bóka farmiða til London um miðjan apríl. Félögin þrjú sem þangað flugu buðu nánast sama verð. Í dag er lægsta fargjaldið hjá easyJet hins vegar um fjórðungi lægra og Icelandair og WOW air bjóða einnig betur núna. Fargjöldin til Kaupmannahafnar og Oslóar lækka einnig milli ára eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Meiri munur í febrúar

Sá sem ætlar út eftir fjórar vikur og bókar miða í dag getur sparað sér töluverðar upphæðir með því að gera verðsamanburð. Þannig er Icelandair helmingi ódýrara en easyJet ef ferðinni er heitið til Lundúna og WOW air er þar mitt á milli. Síðastnefnda félagið er hins vegar ódýrasti kosturinn til Kaupmannahafnar og Norwegian býður sem fyrr upp á ódýrustu farmiðana til Oslóar.