101 brottför til New York í maí

manhattan 860

Ódýrustu farmiðarnir til New York í vor kosta 53.985 krónur og það er töluvert úrval af miðum á undir 80 þúsund. Bæði Delta og Icelandair fjölga ferðum sínum héðan til fjölmennustu borgar Bandaríkjanna í vor og sumar. Þeir sem ætla að vera út í að minnsta kosti viku borga minna en þeir sem stoppa stutt.
Það var flogið að jafnaði tvisvar á dag frá Keflavík til New York í maí í fyrra. Á sama tíma í ár verða ferðirnar hins vegar hundrað og ein talsins og aukningin á milli maímánaða er 63 prósent. Suma daga munu fjórar vélar fljúga héðan til heimsborgarinnar. Helsta ástæðan fyrir þessum tíðari samgöngum er sú að í ár hefst Íslandsflug Delta mánuði fyrr en vanalega. Fyrsta ferðin verður farin 2. maí en ekki í byrjun júní líkt og undanfarin sumur. Bandaríska félagið mun fljúga daglega hingað frá JFK flugvelli en þangað fer Icelandair eina til tvær ferðir á dag. Auk þess fjölgar Icelandair ferðunum til Newark flugvallar.

Ódýrast fyrir þá sem dvelja lengur

Þeir sem ætla að fljúga til New York í maí geta í dag fundið töluvert af flugmiðum á undir áttatíu þúsund krónur hjá báðum flugfélögum samkvæmt athugun Túrista. Ódýrustu miðarnir kosta hins vegar 53.985 krónur hjá Delta en þá þarf að dvelja úti í að minnsta kosti eina viku. Ef stoppað er í nokkra daga þá kostar lægsta farið í maí hjá Delta 79.585 krónur en 68.105 krónur hjá Icelandair. Lengd ferðalagsins skiptir minna máli hjá íslenska félaginu. 

Ekki það sama innifalið

Allir farþegar Icelandair á leið til N-Ameríku mega innrita tvær ferðatöskur án þess að greiða aukalega fyrir en hjá Delta er hámarkið ein. Hins vegar þarf ekki að borga fyrir matinn um borð hjá bandaríska félaginu en þeir sem sitja á ódýrasta farrýminu hjá Icelandair greiða fyrir veitingar í föstu formi.