Fylgjandi sérstökum umferðarreglum fyrir ferðamenn

Þreyttir ferðamenn á bak við stýri í vinstri umferð valda mörgum slysum á nýsjálenskum vegum.

Þreyttir ferðamenn á bak við stýri í vinstri umferð valda mörgum slysum á nýsjálenskum vegum.

Í þremur af hverjum fjórum alvarlegum umferðaróhöppum sem ferðamenn lenda í á Nýja-Sjálandi þá liggur sökin hjá þeim sjálfum. Ellefu banaslys í hittifyrra eru rakin til útlendinga á bílaleigubílum.

Samkvæmt frétt New Zealand Tribute vill þriðjungur Nýsjálendinga senda ferðamenn, sem eru óvanir vinstri umferð, í sérstakt ökupróf við komuna til landsins. Ríflega fjórðungur eyjaskeggja vill hins vegar senda alla útlendinga nema Ástrali í próf. Fimmtán prósent þátttakenda í könnuninni telur að banna eigi ferðamönnum að setjast undir stýri við komuna til landsins ef flugtíminn hefur verið meira en 8 klukkutímar.

Talsmaður nýsjálenska samgönguráðuneytisins telur að það yrði erfitt að setja þess háttar reglur. Hann bendir einnig á að það eru engar hömlur settar á nýsjálenska ferðamenn þegar þeir leigja sér bíla í útlöndum.