Leggja niður áætlunarferðir til Íslands

flybe 860

Eftir að hafa flogið til Keflavíkur nokkrar sinnum í viku síðustu sjö mánuði hafa forsvarsmenn Flybe ákveðið að einbeita sér að öðrum áfangastöðum. Icelandair verður því eina félagið sem býður upp á flug héðan til næst stærstu borgar Bretlands.
Í júní í fyrra hóf breska lágfargjaldaflugfélagið Flybe að fljúga hingað frá Birmingham. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem í boði var áætlunarflug héðan til þessarar næst fjölmennustu borgar Bretlands.
Upphaflega stóð til að starfrækja flugleiðina aðeins yfir sumarmánuðina en í maí, stuttu fyrir jómfrúarferðina, tilkynntu forsvarsmenn Flybe að flugið yrði í boði allt árið um kring þar sem eftirspurnin væri mikil. Það virðist hins vegar hafa dregið úr áhuganum undanfarið því í lok mars fer félagið sína síðustu ferð hingað til lands.

Endurgreiða miðana

Paul Simmons, framkvæmdastjóri hjá Flybe, segir í svari til Túrista að leiðakerfi fyrirtækisins sé sífellt endurmetið og niðurstaða nýlegrar skoðunar hafi verið sú að leggja niður flug til nokkurra áfangastaða, þar á meðal til Reykjavíkur. Að sögn Simmons verður þeim sem áttu miða í ferðirnar sem ekki verða farnar boðin endurgreiðsla.
Flybe er annað flugfélagið á skömmum tíma sem hættir Íslandsflugi því hið belgíska Thomas Cook Airlines mun ekki fljúga hingað í sumar frá Brussel líkt og félagið hefur gert síðustu tvö ár.

Icelandair fer til Birmingham

Þó vélar Flybe hverfi frá Keflavíkurflugvelli þá verður áfram hægt að fljúga þaðan beint til Birmingham því þann 5. febrúar hefst áætlunarflug Icelandair til borgarinnar. Í boði verða tvær ferðir í viku, einni færri en hjá Flybe. Framboð á sætum á þessari flugleið mun samt sem áður aukast því í vélum Flybe er pláss fyrir 88 farþega eða helmingi færri en komast um borð hjá Icelandair.
SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ TIL HVAÐA BORGA VERÐUR FLOGIÐ FRÁ KEFLAVÍK Í SUMAR