Lufthansa stefnir á hraðan vöxt á Íslandi

lufthansa 319

Það styttist í jómfrúarferðir Lufthansa hingað frá Frankfurt og Munchen og forsvarsmenn félagsins hafa uppi áform um dagleg flug. Það styttist í jómfrúarferðir Lufthansa hingað frá Frankfurt og Munchen. Til að byrja með verða flugleiðirnar aðeins starfræktar yfir aðal ferðamannatímabilið. Á því gæti hins vegar orðið breyting á næsta ári.
Síðustu sumur hefur Lufthansa boðið upp á næturflug héðan til þýsku borganna Dusseldorf, Berlínar og Hamborgar. Dótturfélagið German Wings hefur hins vegar tekið yfir þessar flugleiðir. Í staðinn snýr Lufthansa sér að áætlunarflugi hingað frá Frankfurt og Munchen en þaðan flýgur félagið til 190 áfangastaða í 76 löndum.

Hentar fyrir tengiflug

Þotur þýska félagsins munu fara héðan til Frankfurt um miðjan dag og þeir farþegar sem ætla að fljúga áfram með Lufthansa innan Evrópu, til Mið-Austurlanda eða Asíu komast þá aftur í loftið sama dag. Brottfarir til Munchen eru stuttu eftir miðnætti og lent að morgni dags í Bæjaralandi.

Vonast eftir daglegum ferðum á næsta ári

Fyrst um sinn mun Lufthansa fljúga héðan þrisvar sinnum í viku til Frankfurt og á sunnudögum til Munchen. Fyrstu brottfarirnar verða í maí og þær síðustu í lok september. Martin Riecken, talsmaður Lufthansa, segir í viðtali við Túrista að það sé hins vegar markmiðið að starfrækja þessar flugleiðir allt árið um kring frá og með næsta ári og bjóða upp á daglegar ferðir. Hann segir þó að venjan sé að fjölga fyrst ferðum til Frankfurt og svo til Munchen.
Samkvæmt tilkynningu kostar ódýrasta fargjaldið, báðar leiðir, til Frankfurt og Munchen með Lufthansa 31.535 krónur og hægt er að komast til Peking og heim aftur 90.265 krónur.