Manhattan á niðursettu verði

Meira að segja í einni vinsælastu ferðamannaborg heims þarf að slá af verðinu.

 

 

Þó New York sé ein allra vinsælasta ferðamannaborg heims þá þurfa mörg hótel og veitingastaðir að slá af verðinu í byrjun árs til að fá til sín fleiri gesti.

Fyrstu tvær vikurnar í janúar einfalda sumir hótelstjórar í New York verðskrár sínar og bjóða þá nóttina á 100, 200 eða 300 dollara (13 til 39 þúsund krónur). Þetta verð er oftast töluvert undir því sem almennt gerist og gengur á þeim gististöðum sem taka þátt í Hotel Week NYC átakinu. Í flestum tilfellum eru þetta hótel í fínni kantinum og þetta er því gott tækifæri til að búa vel á Manhattan í nokkra daga án þess að eyða um efni fram. Veðrið í borginni er líka óútreiknanlegt á veturna og þá er ekki verra að vera á almennilegu hóteli með heilsurækt og góðum matsölustöðum.

Þeir sem kjósa annars konar hótel geta líka fengið afslátt því í byrjun árs gefa nærri 300 hótel gestum sínum 2500 króna inneignarnótur sem þeir geta eytt á í mat og drykk. Hér má sjá hvaða hótel í New York lækka verðið þessa fyrstu daga næsta árs.

Maturinn á föstu verði

Það er ekki aðeins efnt til hátíðarhalda á reykvískum veitingastöðum í febrúar því á sama tima reyna veitingamenn á Manhattan að fá fleiri að borðunum með því að bjóða lægra verð. Þriggja rétta í hádeginu kostar þá ríflega þrjú þúsund krónur en kvöldmaturinn um fimm þúsund. Í flestum tilfellum eru matseðlarnir fyrir fram ákveðnir og verða birtir þegar nær dregur. Matgæðingar sem fengu flugmiða til Bandaríkjanna í jólagjöf ættu þá kannski að huga að brottför um miðjan febrúar. Sambærileg átök má reyndar finna víðar til dæmis verður maturinn í Washington borg einnig á afslætti 19. til 25. janúar.

2 fyrir 1 á Broadway

Það eru ekki aðeins hótel og veitingastaðir í New York sem þurfa að grípa til verðlækkanna í byrjun árs. Til að fylla bekkina í leikhúsum borgarinnar þá bjóða mörg þeirra tvo miða á verði eins dagana 20.janúar til 5.febrúar. Sala á þessum afsláttarmiðum hefst 9. janúar (sjá hér).

Icelandair er eina flugfélagið sem flýgur til New York frá Keflavík yfir vetrarmánuðina. Þeir sem fengu flugmiða í jólagjöf geta þá nýtt þá til að komast til borgarinnar en þeir sem eiga eftir að bóka miða mega reikna með að farið kosti að lágmarki rúmar 56 þúsund krónur.