Margir setja stefnuna á Mallorca

vivahotel alcudia

Sólarlandaferðir til Mallorca eru á ný á dagskrá ferðaskrifstofanna hér á landi. Sólarlandareisur til Mallorca voru um áratugaskeið fastur liður á dagskrá ferðaskrifstofanna en síðustu ár hefur framboð á ferðum héðan til spænsku eyjunnar verið mjög takmarkað. Á því verður breyting í ár. 
Ferðaskrifstofurnar Vita og Úrval-Útsýn ætla að bjóða upp á vikulegar brottfarir til Mallorca í sumar. Þar með munu tvær flugvélar í viku fljúga héðan til spænsku sólareyjunnar yfir aðalferðatímabilið. Undanfarin ár hafa aðeins verið í boði nokkrar ferðir í byrjun sumars til Mallorca.
Guðrún Sigurgeirsdóttir hjá Vita segir viðtökurnar hér á landi hafa verið mjög góðar líkt og búist var við. „Mallorca er einn besti sólarstaður Evrópu og margir eiga góðar minningar þaðan,“ bendir hún á. 

Fyrr á ferðinni en áður

Alla jafna kynna íslenskar ferðaskrifstofur sumaráætlun sína í fyrsta lagi í kringum áramót. Vita hóf hins vegar sölu á Mallorca ferðunum strax í október og það virðist hafa gefið góða raun. „Bretar, Þjóðverjar og Skandinavar hafi bókað sínar sólarferðir svona snemma árum saman og Íslendingar gera það líka. En þá þurfa ferðaskrifstofurnar að vera tilbúnir með ferðirnar,“ segir Guðrún og nefnir sem dæmi að töluvert sé um að stórfjölskyldur séu að bóka saman sumarfrí og þurfi því að skipuleggja sig með góðum fyrirvara.