Oft munar miklu á fargjöldum systurfélaganna

primera heimsferdir

Ferðaskrifstofan Heimsferðir og flugfélagið Primera Air selja bæði flugsæti í sömu ferðirnar til Alicante, Tenerife og víðar Ferðaskrifstofan Heimsferðir og flugfélagið Primera Air selja bæði flugsæti í sömu ferðirnar til Alicante, Tenerife og víðar. Það munar þó oft miklu á fargjöldunum en bæði fyrirtæki eru í eigu sama aðila.
Undanfarin ár hefur Primera Air flogið leiguflug fyrir ferðaskrifstofur hér á landi og þar á meðal systurfélag sitt, Heimsferðir. Í nóvember sl. hóf flugfélagið hins vegar að selja sjálft flugmiða í ferðir sínar og þá í samkeppni við ferðaskrifstofurnar. Heimsferðir selja einnig staka flugmiða og samkvæmt athugun Túrista þá munar oft miklu á fargjöldum systurfélaganna tveggja þó flogið sé með sömu flugvél á sama degi.

Verðlag háð framboði

Sem dæmi má nefna að sá sem bókar flug hjá Heimsferðum til Tenerife 4. til 11. mars greiðir 59.800 krónur fyrir miðann en 72.926 krónur hjá Primera Air. Sambærileg dæmi má einnig finna á fargjöldum í vor og sumar til Alicante og Barcelona og til Salzburg nú í janúar og febrúar.
„Verðlag er alltaf háð því hve mörg sæti eru til sölu hjá báðum aðilum og á því byggist tekjustýring okkar“, segir Þórður Bjarnason, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Primera Air, aðspurður um hvað skýri þennan mikla mun á fargjöldum systurfélaganna í sömu ferðir.

Tugþúsunda mismunur

Ef margir ferðast saman þá geta upphæðirnar sem fólk sparar sér við að gera verðsamanburð hjá félögunum tveimur orðið mjög háar. Þannig greiðir fjögurra manna fölskylda 239.200 kr. fyrir flug til Tenerife 16. til 25. febrúar hjá Heimsferðum en 321.540 kr. hjá Primera Air. Verðmunurinn er 82.340 krónur eða ríflega þriðjungur. Einn lesandi Túrista bókaði nýverið flug með Primera Air til Tenerife í febrúar fyrir þrjá farþega og greiddi ríflega fimmtíu þúsund krónum meira en hann hefði gert ef sætin hefðu verið keypt hjá Heimsferðum.
Af ofangreindu má sjá að það borgar sig að gera verðsamanburð á flugmiðum áður en gengið er frá bókun. Jafnvel þó tvö systurfélög eigi í hlut. En Primera Air og Heimsferðir tilheyra bæði Primera Travel Group.