Segir niðurstöðu héraðsdóms tryggja öryggi í fluggeiranum

flugtak 860

Frank Holton skipuleggur stundaskrá Keflavíkurflugvallar. Hann segir skynsemina hafa sigrað í deilunni um afgreiðslutímana þar á bæ. Frank Holton sér um að skipuleggja stundaskrá Keflavíkurflugvallar. Hann segir skynsemina hafa sigrað í deilunni um afgreiðslutímana þar á bæ. Málinu er þó ekki lokið því WOW air hefur áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms og Samkeppniseftirlitið birtir brátt nýjan úrskurð.
Fyrir nærri fimmtán mánuðum síðan úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að WOW air ætti að fá tvo af afgreiðslutímum Icelandair á Keflavíkurflugvelli til að geta hafið flug til Bandaríkjanna. Bæði Icelandair og Isavia áfrýjuðu málinu og allt síðasta ár velktist það um í dómskerfinu og fór einnig fyrir EFTA dómstólinn í Lúxemburg. Fyrr í þessum mánuði vísaði héraðsdómur málinu frá. 

Líka sigur fyrir neytendur

Það er danska fyrirtækið Airport Coordination sér um uppröðun á flugtímum á íslenskum flugvöllum og segir Frank Holton, framkvæmdastjóri þess, að niðurstaða héraðsdóms staðfesti að rétt hafi verið staðið að úthlutuninni. „Þetta er að mínu mati stór sigur fyrir neytendur sem og flugrekstraraðila og tryggir öryggi í kringum flugþjónustuna. Ef fjárfesta á í dýrum flugvélum verða fyrirtækin að búa við skilyrði sem gilda til lengri tíma og það gagnast á endanum neytendum líka. Það verður einnig að hafa í huga að hefðarrétturinn er ekki bara réttur því hann leggur líka skyldur á herðar flugrekenda. Þeir verða nefnilega að nýta að a.m.k. áttatíu prósent flugtímanna ef þeir ætla að halda þeim.“
En samkvæmt reglum Evrópusambandsins og IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga, þá missa flugfélög aðeins afgreiðslutíma ef þeir eru ekki nýttir í að lágmarki átta af hverjum tíu tilvikum.

Hefði haft slæmar afleiðingar

Frank Holton telur að ef niðurstaða héraðsdóms hefði verið á hinn veginn þá hefðu afleiðingarnar geta orðið óyfirstíganlegar, ekki aðeins fyrir íslenska flugrekstraraðila, heldur einnig valdið dómínóáhrifum út í heimi. „Sem betur fer sigraði skynsemin að lokum. Sagan sýnir að bæði ný flugfélög og þau þekktari hafa náð að koma sér upp hentugum afgreiðslutímum án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar. Í stuttu máli sagt þá virkar kerfið eins og það er í dag, bæði fyrir eldri og nýja aðila.“ 

Málinu ekki lokið

Forsvarsmenn WOW air hafa gefið það út að niðurstöðu héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar og málið verður þá væntanlega tekið fyrir þar á næstu misserum. Samkeppniseftirlitið hefur einnig til haft til skoðunar samskonar mál en ekki er vitað hvenær niðurstaða í því liggur fyrir. Áfram verður því óvissa um rétt flugfélaga á ákveðnum flugtímum á Keflavíkurflugvelli.