Tvær af fjórum ferðaskrifstofum taka Tyrkland af dagskrá

tyrkland strond830

Allt síðasta sumar buðu fjórar ferðaskrifstofur upp á vikulegar ferðir héðan til Antalya, Bodrum og Marmaris í Tyrklandi. Forsvarsmenn Úrval-Útsýnar og Vita ætla að snúa sér að öðrum áfangastöðum en Heimsferðir og Nazar halda sínu striki.
Í fyrra sameinuðust Heimsferðir, Úrval-Útsýn og Vita um eina 189 sæta flugvél til Tyrklands en í sumar verða aðeins farþegar Heimsferða um borð. Framboð á Tyrklandsreisum hjá Heimsferðum eykst hins vegar ekki sem um þessu nemur þar sem minni flugvél verður notuð í ár að sögn Tómasar Gestssonar, framkvæmdarstjóra Heimsferða. Hann segir sölu á sólarlandaferðum til Bodrum vera nokkuð góða.
Einnig er hægt að bóka staka flugmiða til Tyrklands hjá Primera Air, systurfélagi Heimsferða.

Nazar bætir við

Norræna ferðaskrifstofan Nazar flýgur áfram á eigin vegum til Antalya á suðvesturströnd Tyrklands og verða ferðirnar fleiri í ár en í fyrra. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, segir í samtali við Túrista að það sé miður að ekki skuli fleiri ferðaskrifstofur beina athyglinni að Tyrklandi í ár eins og var raunin á því síðasta. Það jákvæða er þó að í dag hafa selst um fimm hundruð sæti í ferðir Nazar til Tyrklands í ár og það jafngildi aukningu um 77 prósent frá sama tíma í fyrra. Hann segir líka ánægjulegt að sjá að sala á ferðum félagsins frá Akureyri til Antalya í haust fari vel af stað.
Líkt og Túristi greindi frá í gær þá hefur sala á Mallorca ferðum einnig farið vel af stað og því útlit fyrir að Íslendingar bóki sólarlandaferðirnar snemma í ár.