Þrír af hverjum fjórum farþegum með Icelandair

cph terminal

Það sátu ríflega 304 þúsund farþegar í vélum Icelandair sem flugu á milli Keflavíkur og Kastrup í fyrra. Það sátu ríflega 304 þúsund farþegar í vélum Icelandair sem fóru á milli Keflavíkur og Kastrup í fyrra. Hlutdeild félagsins á þessari flugleið hefur verið óbreytt síðustu ár en hún var mun lægri á upphafsárum Iceland Express.
Allt síðasta ár voru farnar tvær til sex ferðir á dag héðan til höfuðborgar Danmerkur á vegum Icelandair og WOW air. 412 þúsund farþegar nýttu sér þessar áætlunarferðir samkvæmt tölum frá dönsku samgöngustofnuninni og nam aukningin milli ára 3,5 prósentum. Í hittifyrra fjölgaði farþegunum hins vegar um nærri fimm af hundraði.

Meðal þeirra stærstu í Kaupmannahöfn

Icelandair var þrettánda umsvifamesta flugfélagið á Kaupmannahafnarflugvelli í fyrra og flugu 304 þúsund farþegar með félaginu til og frá dönsku höfuðborginni. Hlutdeild Icelandair á flugleiðinni milli Kastrup og Keflavíkur var því 74 prósent og hefur hún haldist nær óbreytt síðustu fimm ár samkvæmt útreikningum Túrista, sem byggja m.a. á gögnum frá Kaupmannahafnarflugvelli. Ekki fást hins vegar upplýsingar um farþegafjöldann lengra aftur í tímann. 

Iceland Express fékk fljúgandi start

Þegar Iceland Express hóf starfsemi árið 2003 bauð félagið meðal annars upp á flug til Kaupmannahafnar. Árið síðar hafði félagið náð 40 til 45 prósent hlutdeild í fluginu til borgarinnar samkvæmt nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Staða Iceland Express hafði hins vegar veikst og forsvarsmönnum WOW air hefur heldur ekki tekist að ná meira en fjórðungi farþega á þessari flugleið jafnvel þó þeir hafi tekið yfir áætlun Iceland Express haustið 2012. 
Hafa ber í huga að hluti farþega Icelandair á leið til og frá Kaupmannahöfn millilendir aðeins hér á landi á leið yfir hafið.