Vilja gistináttagjald í miðborg Lundúna

Það gæti styst i að ferðamenn í höfuðborg Bretlands þurfi að greiða aukalega eitt pund fyrir hverja nótt.

 

 

Það gæti styst i að ferðamenn í höfuðborg Bretlands þurfi að greiða aukalega eitt pund fyrir hverja nótt sem dvalið er á hótelum borgarinnar.


Í þriðju hverri borg sem flogið er til frá Keflavík þurfa hótelgestir að greiða sérstakan gistináttaskatt samkvæmt úttekt Túrista. Þess háttar gjaldheimta hefur hins vegar ekki tíðkast í London en það gæti breyst á í nánustu framtíð.

Fulltrúar í hverfisráðinu í Camden í London ætla nefnilega að reyna að fá stuðning í öðrum hlutum borgarinnar við hótelskatti sem myndi nema eina pundi á nótt á hvern gest. Fjögurra manna fjölskylda sem gistir í London í þrjár nætur þyrfti því að greiða aukalega sem samsvarar um 2300 krónum í gistináttagjald.

Þessi nýja tekjulind á að vega upp á móti þeim niðurskurði sem hverfisráðin í London hafa orðið fyrir upp á síðkastið.

Segja skattheimtu nú þegar vera háa

Í frétt The Guardian er haft eftir fulltrúa Camden hverfisins að gistináttagjald tíðkist í mörgum evrópskum borgum og ætti því ekki að fæla ferðamenn frá. Forsvarsmenn hótelgeirans eru ekki á sömu skoðun og benda á að virðisaukaskattur á gistingu í Bretlandi sé tuttugu prósent sem er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Til samanburðar má geta að greiddur er 7 prósent virð­isaukaskattur af gistingu hér á landi.