WOW mun bæta við áfangastöðum vestanhafs

Fjölga ferðum til Bandaríkjanna í ár og á því næsta bætast við nýir áfangastaðir.

 

Í mars fer WOW air jómfrúarferð sína til Bandaríkjanna. Félagið ætlar að fjölga enn frekar ferðum sínum þangað í ár og á því næsta bætast við nýir áfangastaðir.


Fyrir rúmum tveimur mánuðum hófst sala á farmiðum með WOW air til bandarísku borganna Boston og Washington. Vegna mikillar eftirspurnar verður ferðum til borganna tveggja hins vegar fjölgað samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu.

Upphaflega stóð til að fljúga til Baltimore/Washington flugvallar frá byrjun sumars og fram á haust en nú verður fyrsta ferð farin í byrjun maí og flugleiðin starfrækt allt árið um kring. Til Boston Logan flugvallar verður flogið alla daga nema laugardaga frá 27. mars.

Fleiri bandarískar borgir i sigtinu

Aðspurð hvort fleiri borgir vestanhafs bætist við leiðakerfi WOW air, segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, að áfangastöðum WOW air í Bandaríkjunum muni fjölga á næsta ári. Tilkynnt verður síðar hvaða staðir verða fyrir valinu.

Í ár gera forsvarsmenn WOW air ráð fyrir að um átta hundruð þúsund farþegar muni fljúga með félaginu og yrði það aukning um 60 prósent frá síðasta ári. Til samanburðar má geta að Icelandair flutti um 2,6 milljónir farþega í fyrra.