Aðeins íslensku flugfélögin rukka fyrir að leiðrétta innsláttarvillur

kef innritun

Ef þú slærð nafnið þitt rangt inn við bókun á flugmiða þá kostar að leiðrétta villuna en þó aðeins ef flogið er með Icelandair eða WOW air. Ef þú slærð nafnið þitt rangt inn við bókun á flugmiða þá kostar að leiðrétta villuna en þó aðeins ef flogið er með Icelandair eða WOW air. Umsvifamestu erlendu flugfélögin hér á landi rukka ekki fyrir viðvikið.
Það er ekki víst að þér verði hleypt um borð ef nafnið á flugmiðanum er ekki nákvæmlega eins og á vegabréfinu. Það er því vissara að vanda sig þegar miðinn er pantaður og ganga úr skugga um að engar innsláttarvillur hafi slæðst með. Ef það hefur hins vegar gerst þá þarf að hafa samband við flugfélagið og biðja um leiðréttingu áður en ferðalagið hefst.

Aukagjald íslensku félaganna

Starfsmenn Icelandair rukka þrjú þúsund krónur fyrir að laga villur í nafni farþega og hjá WOW air er gjaldið 2.998 krónur fyrir miða sem gildir báðar leiðir en helmingi minna ef aðeins er farið aðra leiðina.  

Beita almenni skynsemi

Auk íslensku félaganna tveggja eru easyJet, SAS og Norwegian umsvifamest í millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli. En öfugt við heimasíður Icelandair og WOW air þá kemur ekki fram á síðum erlendu flugfélaganna hvað það kostar að gera lagfæringar á nöfnum farþega. Túristi hafði því samband við talsmenn flugfélaganna þriggja og í svari Andy Cockburn hjá easyJet segir að þegar raunverulegar innsláttarvillur eru í bókun þá beiti starfsmenn easyJet almennri skynsemi og leiðrétti þær án aukakostnaðar. Svör upplýsingafulltrúa Norwegian og SAS eru á sama veg en Knut Morten Johansen hjá SAS áréttar að farþegarnir eru sjálfir ábyrgir fyrir því að skrifa réttar upplýsingar í bókun og þær verði að passa við það sem kemur fram í vegabréfi viðkomandi.