Langdýrast að leigja bíl við Keflavíkurflugvöll

sulurit bilaleiga

Leiguverð á 20 evrópskum flughöfnum. Þeir borga mest sem vilja hafa bíl til umráða hér á landi en minnst í Danmörku. Það munar mörgum tugum prósenta á verðinu á bílaleigunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öðrum evrópskum flughöfnum. Á vinsælum ferðamannastöðum er leigan í júlí mun hærri en seinnihlutann í júní. 
Það kostar ríflega fjórum sinnum meira að leigja bíl á Keflavíkurflugvelli en á Kaupmannahafnarflugvelli í sumar miðað við verðið í dag.
Ferðamaður sem bókar núna bílaleigubíl í tvær vikur hér á landi í júní, júlí eða ágúst borgar að jafnaði um 122 þúsund krónur fyrir fólksbíl af minnstu gerð í fjórtán daga. Sambærilegur bíll kostar tæplega 29 þúsund á bílaleigunum við flugstöðina í Kaupmannahöfn, 42 þúsund í Barcelona, 46 þúsund í Frankfurt en 77 þúsund í Ósló eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Leigan við Óslóarflugvöll er næst hæst en samt nærri fjörtíu prósent ódýrari en við Keflavíkurflugvöll samkvæmt athugun Túrista.
Í verðkönnuninni voru fundnir ódýrustu leigubílarnir við hverja flugstöð seinnihlutann í júní, júlí og ágúst og svo reiknað út meðalverð á dag.
Notast var við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist. Þannig kostar ódýrasti bílaleigubíllinn á Keflavíkurflugvelli seinni hlutann í júlí rúmlega 130 þúsund skv. Rentalcars en ef bókað er beint hjá Hertz er verðið að lágmarki 198.800 kr. og 214.300 hjá Avis. Ódýrasti bíllinn sem Dohop finnur er á 157 þúsund. Þess ber að geta að Rentalcars.com er samstarfsaðili Túrista og sér um íslenska bílaleiguleit síðunnar. Í öllum tilvikum er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging innifalin í verðinu.

Munur á milli mánaða

Sá sem ætlar í ferðalag um suðurhluta Evrópu í sumar og vill hafa bíl til umráða borgar mun meira fyrir leiguna í júlí og ágúst en seinnihlutann í júní eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Víða annars staðar er verðið það sama alla þrjá mánuðina.
Verð á bílaleigubílum breytast jafnt og þétt og Túristi mun halda áfram að fylgjast með þróun leiguverðs.
tafla bilaleiga