Booking.com opnar skrifstofu á Íslandi

booking henrik

Umsvif eins stærsta hótelbókunarfyrirtækis heims hafa aukist hratt hér á landi og í vor opnar félagið starfsstöð í höfuðborginni. Booking.com hefur einnig sterka stöðu þegar kemur að kaupum Íslendinga á gistingu erlendis. Túristi tók svæðistjóra fyrirtækisins tali.

„Booking.com hefur notið mikillar velgegni á Íslandi og vöxturinn hefur verið mjög hraður síðust þrjú ár. Með því að opna skrifstofu í Reykjavík getum við verið í betra sambandi við samstarfsaðila okkar, haldið með þeim fundi þegar þeim hentar og leitað leiða til að efla samstarfið,“ segir Henrik Strand, svæðistjóri Booking.com í Danmörku og Íslandi, aðspurður um ástæður þess að fyrirtækið ætli að opna starfsstöð hér á landi.

Á heimsvísu hefur Booking.com nærri sex hundruð þúsund gististaði á sínum snærum og er því mjög umsvifamikið í hótelbókunum.
Fyrirtækið sér einnig um hótelvefi fyrir fjölmörg flugfélög og til að mynda nota Icelandair, WOW air og easyJet öll leitarvél fyrirtækisins á sínum heimasíðum. Hótelleit Dohop byggir einnig á lausn Booking.com. Fyrirtækið hefur þar af leiðandi sterka stöðu þegar kemur að hótelbókunum íslenskra ferðamanna. Henrik segir að viðskiptavinir Booking.com geti gengið að sömu kjörum hjá öllum söluaðilum fyrirtækisins því það eru hótelin sjálf sem stjórna verðinu.
Henrik segist vonast til að skrifstofa Booking.com opni í Reykjavík í vor en ekki liggur fyrir hversu margir starfsmenn verða ráðnir.