Gott fjölskylduhótel í París

residence nell a

Gott íbúðahótel í níunda hverfi Parísar fyrir þá sem sjá fram á að verja smá tíma upp á herbergi í ferðalagi um borgina. Jafnvel þó höfuðborg Frakklands sé sneisafull af góðum matsölustöðum þá getur verið kostur fyrir ferðamenn að hafa aðgang að eigin eldhúsi í borginni. Flest fjölskyldufólk þekkir það til dæmis hversu mikilvægt er að geta boðið yngstu ferðalöngunum upp á morgunmat strax í upphafi dags og mörgum þykir spennandi að kaupa í matinn í sælkerabúðum borgarinnar. Þeir sem vilja búa á hóteli í París en engu að síður hafa möguleika á að útbúa einfalda máltíð upp á herbergi eru vel settir á Residence Nell í níunda hverfi Parísar. 

Herbergin

Það eru sautján íbúðir og stúdíó í húsi Residence Nell og allar vistaverur eru innréttaðar á nýmóðins hátt og öll eldhúsáhöld frá hinu ítalska Alessi. Baðherbergin eru nokkuð stór og þar eru þægilegir sloppar og inniskór fyrir gestina. Í stærri herbergjunum eru tvö sjónvörp og frítt net er í öllu húsinu.

Maturinn

Það er hægt að panta morgunmat upp á herbergi og kemur þá karfa með alls kyns brauði, áleggi og mjólkurvörum upp á herbergi á þeim tíma sem beðið er um. Starfsmenn hótelsins þekkja líka vel inn á heimsendingaþjónustu veitingahúsanna í hverfinu fyrir þá sem vilja borða heima. Kaffivél er á herbergjunum.

Verðið

Ódýrustu herbergin kostar að minnsta kosti 175 evrur og minnstu íbúðirnar 220 evrur. Verðið getur þó verið nokkur hærra á vinsælum tímabilum. Þeir sem bóka beint á heimasíðu hótelsins fá stundum sérkjör, til dæmis 10 prósent afslátt. 

Staðsetningin

Residence Nell er á horni tveggja fjölfarna gatna og stórborgarniðurinn fer ekki framhjá gestunum. Þeir sem vilja minna ónæði ættu því að biðja um herbergi á eftir hæðunum. Metrókerfi Parísar teygir anga sína víða í borginni og því alls staðar hægt að nýta sér almenningssamgöngur. 
Sjá heimasíðu Residence Nell
residencenell