Fremsta flughöfn Evrópu

fle 860

Keflavíkurflugvöllur var valinn besti flugvöllur Evrópu á síðastliðnu ári Keflavíkurflugvöllur var valinn besti flugvöllur Evrópu á síðastliðnu ári. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sá íslenski kemur vel út út alþjóðlegum samanburði.
Árlega eru flugfarþegar út um allan heim beðnir um segja álit sitt á aðbúnaðinum og þjónustunni í þeirri flugstöð sem þeir eru staddir í. Þeir flugvellir sem fá hæstu einkunn í þessum könnunum hljóta sérstaka viðurkenningu alþjóðasamtaka flugvalla, Airport Council International og í ár fékk Keflavíkurflugvöllur nafnbótina Besti flugvöllur Evrópu. 
Næst á eftir Keflavíkurflugvelli í flokki evrópskra flugvalla eru Sheremetyevo í Moskvu, Porto í Portúgal og Möltuflugvöllur.

Margverðlaunaður flugvöllur

Þetta er í þriðja sinn sem íslenski flugvöllurinn fær þess háttar viðurkenningu. Árið 2009 var flugvöllurinn í efsta sæti í Evrópu og árið 2011 besti flugvöllur í Evrópu með færri en tvær milljónir farþega. Þá var flugvöllurinn valinn á heiðurslista samtakanna árið 2014 fyrir samfelldan árangur í þjónustukönnunum frá árinu 2008 samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Isavia.
Þar er haft eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, að hann sé stoltur og ánægður með árangurinn: „Starfsfólk okkar og annarra rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli auk lögreglu og tollgæslu hefur enn einu sinni sýnt að þar er veitt framúrskarandi þjónusta og það þótt ótrúleg farþegaaukning sé á flugvellinum. Við höfum áður náð þessum árangri og fengum auk þess sérstaka viðurkenningu í fyrra fyrir að hafa verið meðal fimm bestu flugvalla undanfarin ár. Það er sérstaklega ánægjulegt að viðhalda þessum frábæra árangri þrátt fyrir hið mikla álag á þessu stærsta ári í sögu flugvallarins.“