Danskir farþegar mun betur settir ef flugfélag verður gjaldþrota

cph terminal

Þegar flugfélög fara á hausinn þurfa farþegarnir að koma sér heim fyrir eigin reikning og þeir sem eiga ónotaða miða tapa þeim í flestum tilfellum. Þegar flugfélög fara á hausinn þurfa farþegarnir að koma sér heim fyrir eigin reikning og þeir sem eiga ónotaða miða tapa þeim í flestum tilfellum. Dönsk stjórnvöld hafa lengi reynt að bæta stöðu þessa hóps neytenda og loks lítur út fyrir að flugfélögin þar í landi hafi sæst á tillögu ráðamanna.
Á hverju ári fara nokkur flugfélög í þrot og til að mynda hafa þrjú dönsk flugfélög þurft að hætta starfsemi síðustu ár. Í kjölfarið urðu þúsundir farþega strandaglópar í útlöndum og urðu þeir sjálfir að leggja út fyrir nýjum flugmiða til að komast heim. Dönsk stjórnvöld hafa lengi unnið að því bæta réttindi flugfarþega við gjaldþrot og tryggja þeim heimferð ef rekstur flugfélagsins stöðvast á meðan á ferðalaginu stendur. Undanfarin ár hafa farþegar í Danmörku til dæmis getað keypt aukalega sérstaka gjaldþrotatryggingu með flugmiðanum sínum. Gallinn við fyrirkomulagið var hins vegar það að fá flugfélög buðu upp á trygginguna og hún náði því ekki til marga.

40 króna iðgjald

Í byrjun þessa árs náðu yfirvöld í Danmörku og ferðageirinn þar í landi hins vegar samkomulagi um að allir flugfarþegar sem eiga að ljúka ferðalagi í danskri flughöfn borgi aukalega tvær danskar krónur (um 40 íslenskar krónur) í sjóð sem nýttur verður til að fljúga farþegum heim næsar þegar flugfélag í Danmörku verður gjaldþrota. Þessa tryggingu verða öll flugfélög sem starfsemi í Danmörku að bjóða en eins og áður segir verða aðeins farþegar sem ljúka ferðalaginu í Danmörku tryggðir.

Íslenskir farþegar á eigin ábyrgð

Þessi nýja danska trygging verður sér á báti því í öðrum löndum eru það aðeins farþegar sem hafa keypta pakkaferð hjá ferðaskrifstofu sem fá greidda heimferð ef ferðaskipuleggjandinn fer í þrot. Á vef Samgöngustofu segir til að mynda að það eina sem farþegar geta gert ef þeir verða fyrir tjóni vegna gjaldþrots íslensks flugrekanda er að gera kröfu í þrotabúið. Þar segir einnig að flugrekendur ábyrgist ekki að farþegar komist heim sér að kostnaðarlausu ef þeir eru staddir erlendis.