Hleypa ekki léttklæddum flugfarþegum inn

qantas lounge

Fólk sem mætir í sandölum og strandfötum í flug fær ekki aðgang að betri stofum ástralska flugfélagsins Qantas frá og með vorinu. Fólk sem mætir í sandölum og strandfötum í flug fær ekki aðgang að betri stofum ástralska flugfélagsins Qantas frá og með vorinu. Mikill meirihluti farþega félagsins er fylgjandi strangari reglum um klæðaburð.
Það oftast heitt í Ástralíu og heimamenn sjaldan kappklæddir. Sérstaklega ekki þegar þeir eru komnir í frí. Það er því nokkuð um að fólk þar í landi mæti í flug í ermalausum bolum og nánast berleggjað í sandölum.
Forsvarsmenn Qantas, stærsta flugfélags Ástralíu, ætla hins vegar að reyna að hafa áhrif á fataval farþeganna því frá og með 1.apríl nk. verður engum hleypt inn í betri stofur félagsins nema að vera í hefðbundnum fötum. Í frétt The Telegraph er haft eftir einum af forsvarsmönnum Qantas að gripið sé til þessa ráðs vegna síendurtekinna kvartanna frá farþegum sem láta léttklædda fólkið fara í taugarnar á sér. Talsmaður flugfélagsins bendir einnig á að nýju reglurnar séu þær sömu og gildi á mörgum áströlskum veitingastöðum og samkvæmt könnun eru margir fylgjandi þessum nýju kröfum um klæðaburð.

Léttklæddir Íslendingar í Leifsstöð

Það er þó ekki aðeins á suðrænum slóðum þar sem fólk mætir í baðfötum í flug. Yfir sumarmánuðina má nefnilega sjá farþega ganga klæðalitla um Keflavíkurflugvöll en líklega eru það í flestum, ef ekki öllum tilvikum, Íslendingar sem eru nýkomnir heim frá sólarlöndum. Þetta sama fólk sést svo skjálfa á bílastæðinu fyrir framan flugstöðina stuttu síðar innan um kappklædda erlenda ferðamenn.