Kominn tími á að rétta hlut Stokkhólms

stokkholmur djurgarden

Íslenskir ferðamenn eru miklu fjölmennari í Kaupmannahöfn en Stokkhólmi en kannski er kominn tími til að breyta út að vananum. Íslenskir ferðamenn eru miklu fjölmennari í Kaupmannahöfn en Stokkhólmi. Þörfin fyrir tilbreytingu og lækkandi gengi sænsku krónunnar gæti hins vegar lokkað fleiri til „Feneyja norðursins“ á kostnað heimsóknar til gömlu höfuðborgarinnar.
Það þarf ekki að rölta lengi eftir Strikinu til að heyra íslensku og sennilega er óhætt að fullyrða að ávallt sitji að minnsta kosti tveir fulltrúar þjóðarinnar við borð í Nýhöfn. Á sama tíma heyrist okkar ástkæra ylhýra miklu sjaldnar á matsölustöðunum í Gamla stan, á Skansen eða við verslanirnar á Biblioteksgatan. Það er alla vega reynsla þess sem hér skrifar eftir að hafa búið um árabil í þessum tveimur borgum.

Benny, Vasaskipið og kardemommubollur

Tölurnar sýna líka að það hallar verulega á hlut Stokkhólms þó Icelandair fljúgi þangað allt að tvisvar á dag. Á síðasta ári voru íslenskir hótelgestir í Kaupmannahöfn til að mynda nærri fjórfalt fleiri en í Stokkhólmi. Það eru því sennilega margir hér á landi sem eiga eftir að heimsækja Vasasafnið, fá sér kardemommubollu með kaffinu, rölta milli safna og skemmtigarða á Djurgården eða sigla út í hinn rómaða skerjagarð. Einhverjir gætu líka viljað kynna sér Södermalm sem skríbentar Vogue segja svalasta hverfi í Evrópu, Drottningholm þar sem konungshjónin halda til eða bara fá sér pylsu við Karlaplan í von um að Benny úr Abba eigi leið framhjá með hvíta hundinn sinn.

Sú sænska gefur eftir

Það eru því nægar ástæður til að gefa Stokkhólmi tækifæri og ekki skemmir fyrir að í dag fæst nærri fimmtungi meira fyrir íslensku krónurnar í Svíþjóð en í fyrra og hittifyrra. Danska króna hefur lækkað minna og samkvæmt lauslegri könnun munar stundum allt að tíund á verðinu í verslunum H&M í heimalandinu og í Danmörku þegar reiknað er yfir í íslenskar krónur. Verðskrár hótela og veitingastaða eru hins vegar á mjög svipuðu róli höfuðborgunum tveimur.