Leiðir til að halda bílaleigureikningnum niðri

Það kostar þúsundir króna á dag að hafa bíl til umráða í sumarfríinu á meginlandi Evrópu. Verðið er þó afar mismundandi eftir löndum og mánuðum. Þeir hagsýnu geta hins vegar gert ýmislegt til að lækka kostnaðinn.

vegur 860

Þú borgar nærri þrefalt meira fyrir að leigja bíl við komuna til Óslóar en í Kaupmannahöfn. Og sá sem ætlar að fara um austurhluta Frakklands borgar helmingi minna fyrir bílinn í Lyon en Genf eða Basel. Á Spáni og Ítalíu skiptir hins vegar máli hvenær sumarsins bílinn er notaður. Seinni hlutann í júní rukka leigurnar við flugvöllinn í Alicante tæpar tvö þúsund krónur á dag fyrir bíla í minni kantinum en mánuði síðar er verðið tvöfalt hærra. Svipaða sögu er að segja um leigurnar í Barcelona, Mílanó og Róm. Norðar í álfunni er minni munur á milli mánaða samkvæmt nýlegri verðkönnun Túrista.

Bílar á flugmiðaverði

Þeir sem ætla að keyra um í fríinu geta sparað sér töluverðar upphæðir með því að skipuleggja fríið með þessar verðsveiflur á bílaleigunum í huga. Tveggja vikna leiga á Volkswagen Golf kostar til dæmis um fjörtíu þúsund krónur síðari hluta júnímánaðar en um sextíu þúsund í júlí. Það er álíka mikið og ódýrasti flugmiðinn til borgarinnar kostar í dag. Þeir sem ætla að nýta sér áætlunarflug til Rómar og ferðast um Ítalíu á eigin vegum komast mun ódýrara frá leigunni með því að vera á ferðinni í ágúst en í júlí.

Stólar og tryggingar

Það eru þó ekki aðeins val á tímasetningum sem skiptir máli. Ef börn eru með í för þá borgar sig í flestum tilfellum að taka bílstólinn með sér að heiman í stað þess að leigja einn úti. Sum flugfélög rukka fyrir að ferja bílstólana en gjaldið er oftast lægra en leiga á stól í viku eða meira.
Bílaleigufyrirtækin taka líka ríflegt gjald fyrir að færa sjálfsábyrgðina niður í núllið og reikningurinn hjá þeim áhættufælnu verður því miklu hærri fyrir vikið. Þeir sem vilja kaupa þessa aukatryggingu geta komist ódýrara frá henni með því að taka hana hjá sérstökum tryggingarfélögum eða bókunarsíðum fyrir bílaleigubíla. Þessar sömu bókunarsíður eru líka þarfþing til að bera saman leiguverð á hverjum stað fyrir sig. Það getur nefnilega munað mjög miklu á því verði sem þessar síður finna og þeim kjörum sem bílaleigurnar bjóða beint.