Máli WOW air vísað frá Hæstarétti

fle 860

Fyrir nærri einu og hálfu ári úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að WOW air ætti heimtingu á tveimur af afgreiðslutímum Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Fyrir nærri einu og hálfu ári úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að WOW air ætti heimtingu á tveimur af afgreiðslutímum Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Þessari niðurstöðu var áfrýjað og síðan hefur málið farið um dómskerfið hér heima og fyrir EFTA dómstólinn í Lúxemburg. Í dag birti Hæstiréttur sína niðurstöðu.
Í febrúar árið 2013 fór WOW air fram á það við Samkeppniseftirlitið að úthlutun afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar yrði skoðuð. Vildu forsvarsmenn félagsins meina að þeim væri ókleift að hefja flug til Bandaríkjanna nema komast að á sömu tímum og Icelandair nýtir í dag. En plássleysi við flugstöðina gerir það að verkum að ekki komast fyrir fleiri flugfélög á sömu dagspörtum og Icelandair nýtir fyrir Ameríkuflug sitt.
Samkeppniseftirlitið tók undir kröfu WOW air en áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þá niðurstöðu úr gildi. WOW air kærði þá ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar en héraðsdómur vísaði málinu frá og það gerði Hæstiréttur einnig í dag. 

Sama fyrirkomulag hér og annars staðar

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í dag segir að niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála standi nú óhögguð og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi verið ólögmæt. „Ekkert kemur fram um það í dóminum, ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eða úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að það fyrirkomulag sem viðhaft er við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hafi skaðleg áhrif á samkeppni, enda er þetta sama fyrirkomulag og er viðhaft alls staðar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir jafnframt í tilkynningu Icelandair.

Sigur fyrir neytendur

Það er danska fyrirtækið Airport Coordination sér um uppröðun á flugtímum á íslenskum flugvöllum og í viðtali við Túrista sagði Frank Holton, framkvæmdastjóri þess, að frávísun héraðsdóms um daginn hafi verið sigur fyrir fluggeirann og neytendur. 

Deilunni um afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar er hins vegar ekki lokið því Samkeppniseftirlitið hefur í nærri eitt ár verið með nýtt erindi WOW air til skoðunar. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta í því máli.