Samkeppniseftirlitið skoðar áfram úthlutun afgreiðslutíma

flugtak 860

Tvö ár eru liðin frá því að WOW air kvartaði við Samkeppniseftirlitið vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Tvö ár eru liðin frá því að WOW air kvartaði við Samkeppniseftirlitið vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Samkeppniseftirlitið skoðar nú nýtt erindi WOW air vegna sömu mála.
Fyrir einu og hálfu ári úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að WOW air skyldi fá tvo af afgreiðslutímum Icelandair á Keflavíkurflugvelli til að geta hafið flug til Bandaríkjanna sumarið 2014. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála snéri úrskurðinum við og nú hefur héraðsdómur og Hæstaréttur vísað málinu frá. EFTA dómstóllinn í Lúxemburg tók málið einnig til skoðunar.

Geta ekki gefið upplýsingar um gang mála

Á sama tíma og málið hefur farið milli dómstóla hér heima og erlendis hefur Samkeppniseftirlitið haft til skoðunar nýtt erindi WOW air sem snýr að afgreiðslutímum fyrir næstkomandi sumar. Aðspurður hvort nýja málið verði látið niður falla nú þegar Hæstiréttur hefur vísað því gamla frá segir Steingrímur Ægisson, sviðstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu, að ekki sé hægt að gefa neinar upplýsingar að svo stöddu um gang mála. Hann segir að nú þegar dómur Hæstaréttar liggi fyrir þá verði tekin afstaða til seinna málsins. Það sé þó ennþá í nánari skoðun og ekki liggi fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta.

Fundu réttu tímana

Þrátt fyrir að WOW air hafi ekki fengið þá afgreiðslutíma við Leifsstöð sem félagið hefur óskað eftir þá hefst Bandaríkjaflug félagsins í næsta mánuði. Talsmaður WOW air hefur sagt að félagið hafi fundið hentuga tíma fyrir flugið vestur um haf og vélar WOW air fara því í loftið á undan vélum Icelandair.