WOW eignast sínar fyrstu flugvélar

wow airbus

Hingað til hefur WOW air leigt flugflota sinn en í næsta mánuði fær flugfélagið afhentar sínar eigin vélar og er listaverð þeirra um 30 milljarðar. Hingað til hefur WOW air leigt flugflota sinn en í næsta mánuði fær flugfélagið afhentar sínar eigin vélar og er listaverð þeirra um 30 milljarðar.
Í dag tilkynnti WOW air að félagið hefði fest kaup á tveimur nýjum Airbus A321 farþegaþotum og verða þær nýttar í Ameríkuflug félagsins sem hefst í lok mars. Afhending á vélunum fer fram um miðjan næsta mánuð. Í fluggeiranum er biðtími eftir nýjum flugvélum vanalega talinn í árum en svo er ekki í þetta skipti. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að unnið hafi verið að þessu í lengri tíma. „Við höfum stefnt að því lengi að eignast okkar eigin vélar eða allt frá því að við fengum flugrekstrarleyfið okkar og því mjög ánægjulegt að sjá þann draum rætast.“

30 milljarða verðmiði

Í tilkynningu frá WOW air segir að listaverð á einni Airbus 321 þotu sé fimmtán milljarðar en kaupverðið er ekki gefið upp. Til samanburðar má geta að fyrir rúmum tveimur árum tilkynnti Icelandair um kaup á tólf nýjum Boeing 737 MAX þotum og var heildarkostnaðurinn 180 milljarðar króna eða um 15 milljarðar fyrir hverja vél. Vélar Icelandair verða þó ekki afhentar fyrr en árið 2018.

Veðja á ólíkar stærðir flugvéla

Jómfrúarferð WOW air til Bandaríkjanna verður farin til Boston 27. mars og í maí hefjast áætlunarferðir til Washington. Báðar flugleiðirnar verða starfræktar allt árið um kring. Þar með getur WOW air boðið upp á áætlunarferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi líkt og Icelandair hefur gert um langt skeið. Það verða sæti fyrir 200 farþegar í vélum WOW air en í nýjum Boeing þotum Icelandair verða sæti fyrir annars vegar 153 farþega og hins vegar 172. Forsvarsmenn WOW air og Icelandair veðja því á gjörólíkar stærðir flugvéla fyrir áætlunarflug til N-Ameríku. Í vélum Icelandair í dag er pláss fyrir um 183 farþega.