Áfram langdýrast að leigja bíla á Íslandi

bilaleigur konnun30mar turisti

Verðskrár bílaleiganna við Keflavíkurflugvöll í sumar eru miklu hærri en gerist og gengur við aðrar evrópskar flughafnir. Verðskrár bílaleiganna við Keflavíkurflugvöll í sumar eru miklu hærri en gerist og gengur við aðrar evrópskar flughafnir. Á Spáni hefur verðið lækkað töluvert síðustu mánuði.
Ferðamaður sem bókar núna bílaleigubíl af minnstu gerð fyrir sumarið greiðir að lágmarki 9.134 krónur á dag fyrir bílinn á leigunum við Keflavíkurflugvöll. Sá sem er á leið til Kaupmannahafnar borgar hins vegar aðeins rétt um tvö þúsund krónur á dag. Munurinn á sumartöxtunum við þessa tvo flugvelli er ríflega fjórfaldur líkt og hann var 1. febrúar sl. þegar Túristi gerði síðast samanburð á leiguverði við tuttugu evrópskar flughafnir. Í súluritinum hér að ofan má sjá hvernig leiguverð sumarsins hefur þróast síðustu 2 mánuði. 

Ódýrara á Spáni

Það er töluvert framboð á flugi héðan til Alicante og Barcelona frá vori og fram á haust og því vafalítið margir Íslendingar á leiðinni þangað. Þeir sem vilja hafa ökutæki til umráða í Spánarreisunni í sumar og hafa ekki ennþá pantað bíl borga í dag 12 til 16 prósent minna en þeir sem bókuðu fyrir tveimur mánuðum síðan. Verðið hefur einnig lækkað töluvert við Genfarflugvöll. Meðaldagverðið hér á landi hefur hins vegar hækkað um fjóra af hundraði. 

Finnur lægra verð

Í verðkönnuninni voru fundnir ódýrustu bílaleigubílarnir við hverja flugstöð seinnihlutann í júní, júlí og ágúst og svo reiknað út meðalverð á dag miðað við tveggja vikna leigutíma. Í öllum tilvikum er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging innifalin í verðinu.
Notast var við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist. Sem dæmi finnur Rentalcars bílaleigubíl á Keflavíkurflugvelli, seinni hlutann í júlí, á rúmlega 131 þúsund krónur. Ódýrasti bíllinn hjá Hertz þessa sömu daga er á um 203 þúsund krónur og 214 þúsund hjá Avis. Ódýrasti bíllinn sem Dohop finnur er á ríflega 136 þúsund. Þess ber að geta að Rentalcars.com er samstarfsaðili Túrista og heldur úti bílaleiguleitarvél síðunnar.
TENGDAR GREINAR: Flestar kvartanir vegna íslenskra bílaleiga